

Hönnuðurinn og listamaðurinn Þorleifur Kamban Þrastarson er látinn 43 ára að aldri. Frá þessu greinir Vísir og vitnar í tilkynningu frá aðstandendum. Hann lést í Kaupmannahöfn þann 1. nóvember.
Í tilkynningu aðstandenda segir:
„Foreldrar Þorleifs eru Gerður Sjöfn Ólafsdóttir táknmálstúlkur og Þröstur Kamban Sveinbjörnsson vélstjóri. Bræður hans eru Sindri Rafn og Eyþór Kamban. Eftirlifandi unnusta Þorleifs er Andrea Eyland. Börn Þorleifs eru Sara Kamban, Sóley, Eldey, Kári, Björgey Njála, Hrafnkell Kamban, Týr, Björgvin Ylur og Þröstur Varmi.
Þorleifur ólst upp í Efra-Breiðholti, gekk í Hólabrekkuskóla og nam rafvirkjun við Fjölbrautaskólann í Breiðholti. Hann nam grafíska hönnun við Listaháskóla Íslands og útskrifaðist árið 2016. Þorleifur starfaði lengi á auglýsingastofunni Jónsson & Le‘macks. Samhliða vann hann að ótal mörgum verkefnum enda einstaklega fjölhæfur og skapandi, knúinn áfram af róttækum hugmyndum og stöðugri forvitni. Þorleifur var mikill ævintýramaður, elskaði ferðalög, veiði og var mikill náttúruunnandi.
Hann var skapari af ástríðu og listsköpun hans kom fram í ótal formum svo sem myndlist, tónlist, myndbandsverkum og ljósmyndum. Allt lék í höndunum á honum og hann hannaði og smíðaði allt frá ljósum upp í níu metra hátt A-hýsi í Ölfusi.
Hann hlaut tvenn FÍT verðlaun: fyrir hönnun á safnplötu hljómsveitarinnar Grafík árið 2012; og fyrir veggspjald ársins 2015 fyrir sýninguna Bláskjár. Hann fékk viðurkenningu FÍT árið 2017 fyrir hönnun bókarinnar Kviknar. Þorleifur og Andrea unnu saman að því síðustu árin að skapa fræðslu í ýmsum myndum og miðlum fyrir foreldra. Þorleifur hannaði og skapaði útlit heimildarþáttaraðanna Líf kviknar frá 2018 og Líf dafnar frá 2021. Líf kviknar var valinn mannlífþáttur ársins á Edduverðlaununum 2019 og tilnefndur sem sjónvarpsefni ársins.“