Réttarhöld standa nú yfir í Héraðsdómi Reykjavíkur yfir þremur mönnum sem ákærðir eru fyrir stórfelld skemmdarverk með því að hafa kveikt í Teslu-bifreið lögreglukonu við Rekagranda í ágústmánuði árið 2023.
Er um hálftími var liðinn af þinghaldinu ákvað dómari að loka þinghaldinu að ósk verjanda eins mannanna þriggja. Blaðamaður DV óskaði eftir því að kæra ákvörðunina en dómari sagði hana ekki kæranlega, meðal annars vegna þess að ákvörðunin var tekin eftir að þinghald var hafið.
Hvorki aðrir verjendur né saksóknari lögðust gegn beiðninni. Verjandinn rökstuddi beiðnina með vísan til þess að loka bæri þinghaldinu til hlífðar sakborningi . Á fyrri stigum málsins hefðu ákærði og brotaþoli fengið neyðarhnapp að ákvörðun lögreglu vegna framburðar sem þau gáfu hjá lögreglu.
Mennirnir þrír bera allir erlend nöfn en eru með íslenska kennitölu. Þeir eru á milli tvítugs og þrítugs en sá yngsti var þó aðeins 18 ára er atburðurinn átti sér stað. Samkvæmt heimildum DV eru mennirnir taldir vera í viðkvæmri stöðu í samfélaginu.
Einn mannanna er ákærður fyrir tilraun til að valda stórfelldum eignaspjöllum með því að hafa, gegn vilyrði um 100 þúsund króna greiðslu, skvett bensíni á bílinn og reynt að kveikja í honum. Það tókst ekki.
Það tókst hins vegar í annarri tilraun að kveikja í bílnum og fyrir þann verknað eru allir þrír mennirnir ákærðir, þ.e. fyrir stórfelld eignaspjöll. Einn fyrir að skipuleggja verkið, kaupa bensín og fá áðurnefnda manninn til þess, sá fékk síðan þriðja manninn með sér í verkið og tókst þeim að kveikja í bílnum sem eyðilagðist.
Einn sakborninganna er spænskur maður, fæddur árið 2002. Er hann var spurður hvort heimilisfang hans væri rétt í dómskjölum sagðist hann vera fluttur en þurfti að fletta upp í síma sínum eftir hinu nýja heimilisfangi.
Annar sakborninganna sækir ekki þing þar sem honum hefur verið vísað úr landi. Er hann arabískumælandi. Þriðji sakborningurinn var ekki mættur við upphaf þinghaldsins og mun ekki sitja þinghaldið en lögmaður hans situr það.
Tekið skal fram að þær myndir sem hér eru birtar voru teknar áður en þinghaldið hófst.
Nokkur fjöldi áheyrenda voru viðstaddir eða rúmlega 20 manns. Er dómari spurði verjandann hvers vegna hann hefði ekki óskað eftir lokun þinghalds fyrr sagði hann að enginn áhugi hafi verið málinu og mátti skilja á honum að áhorfendafjöldinn hafi komið honum í opna skjöldu.
Allir áheyrendurnir, utan blaðamanns DV, voru hins vegar námsmenn sem sóttu þinghaldið vegna skólaverkefna. Var þar ýmist um að ræða nemendur í félagsráðgjöf eða lögfræði.
Fréttinni hefur verið breytt