Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins hefur stefnt pólskum manni á fertugsaldri vegna sex flutninga með sjúkrabíl á aðeins hálfu ári. Samkvæmt stefnunni er ekki vitað hvar hann er niðurkominn.
Stefnan var birt í Lögbirtingablaðinu í dag. Er það Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins með Heiðu Björg Hilmilsdóttur, borgarstjóra, sem fyrirsvarsmann sem stefnir 37 ára gömlum pólskum manni sem aldrei hefur haft lögheimili á Íslandi.
Er þess krafist að maðurinn greiði skuld upp á rúmlega 344 þúsund krónur ásamt dráttarvöxtum auk málskostnaðar.
Kemur fram að maðurinn hafi óskað eftir þjónustu sjúkrabíls í sex skipti á aðeins hálfu ári, það er frá júlí til desember árið 2024. Síðasta skiptið var á gamlársdag. Fyrir hvern flutning var hann rukkaður um rúmar 57 þúsund krónur en greiddi ekki.
„Skuld þessi hefur ekki fengist greidd þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir. Af þeim sökum er stefnanda nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar,“ segir í stefnunni.
Þar sem maðurinn hefur aldrei haft lögheimili á Íslandi er stefnan birt í Lögbirtingablaðinu. Ekki er vitað hvar hann býr. Er skorað á hann að mæta þegar málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 27. nóvember næstkomandi.
„Verði ekki sótt þing af hálfu stefnda við þingfestingu og fyrirtöku málsins getur stefndi átt von á að stefnukröfurnar verði gerðar aðfararhæfar gagnvart sér með áritun eða dómi,“ segir í stefnunni.