Rétt í þessu var kveðinn upp dómur í Hæstarétti vegna máls sem höfðað var á hendur Íslandsbanka vegna meintra ólögmætra vaxtaskilmála á íbúðarláni. Íslandsbanki var sýknaður af tveimur kröfum en fallist var á þriðju kröfu stefnenda um að ógilda skilmála um breytilega vexti. Formaður Neytendasamtakanna lýsir yfir fullnaðarsigri lánþega í málinu.
Málið var höfðað á hendur Íslandsbanka af tveimur lánþegum og varðar meinta ólögmæta skilmála í samningum um óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði bankann af öllum kröfum lánþeganna í nóvember í fyrra en í ráðgefandi áliti EFTA-dómstólsins kom fram að skilmálar lánsins væru ekki nægilega skýrir og samræmdust ekki Evróputilskipunum.
Hæstiréttur samþykkti að taka málið fyrir án þess að það færi fyrst fyrir Landsrétt. Málið var talið fordæmisgefandi og tugir milljarða króna hafa verið sagðir í húfi fyrir bankana.
Fram kemur í umfjöllunum Rúv og Vísis að Íslandsbanki sé sýknaður af öllum kröfum lánþega nema einni. Ógiltur hafi verið 2. málsliður skilmála lánsins um breytilega vexti. Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna, sem höfðuðu málið, lýsti því yfir í dómsalnum að sigur hefði unnist og að þetta þýði að banka sé ekki heimili að miða við huglæga þætti við ákvörðun vaxta.