Anton Kristinn Þórarinsson, Toni, hefur loksins selt stórhýsi sitt við Haukanes í 24 Garðabæ. Húsið var sett á sölu fyrir tveimur árum og aftur í janúar í fyrra.
Sjá einnig: Anton Þórarinsson selur glæsihús sitt – Hálfklárað á Haukanesi
Þórarinn Arnar Sævarsson, einn eigenda fasteignasölunnar Re/Max, keypti húsið fyrir 484 milljónir króna. Ásett verð var 635 milljónir króna. Vísir greindi fyrst frá.
Kaupsamningur var undirritaður 29. september og húsið er afhent á morgun á byggingarstigi tvö.
Á lóðinni var áður einbýlishús byggt árið 1973, sem var rifið. Nýja húsið er hannað af Kristni Ragnarssyni hjá KRark. Húsið er 620 fm á 1467 fm eignarlóð sem er alveg við sjóinn og er með óskertu sjávarútsýni.
Húsið skiptist í eldhús, stofu, borðstofu, skrifstofu, tvö stór svefnherbergi, baðherbergi, hjónasvítu með fataherbergi og baðherbergi, sjónvarpshol, og bílskúr á efri hæð. Á neðri hæð eru eldhús/borðstofa, tvö svefnherbergi, tvö baðherbergi, þvottahús, geymsla, skrifstofuherbergi, stórt opið afþreyingarrými, tæknirými auk herbergja sem hugsuð voru sem kvikmyndaherbergi og leikherbergi. Af neðri hæðinni er útgengt út í lóðina og fjöruna. Skv. seljanda er heimilt að setja bátaskýli á lóðina.
Húsið er staðsteypt tvílyft einbýlishús og er burðarvirkið staðsteypt með járnbentri steinsteypu. Útveggir eru einangraðir að utan með steinull og klæddir með stuðlabergs álklæðningu frá Idex.