UEFA vinnur að breytingum sem myndi gera opnunarleik Meistaradeildarinnar að stórviðburði, í tilraun til að auka tekjur. Daily Mail greinir frá.
Breytingin myndi taka gildi tímabilið 2027-2028 og hljóðar svo að ríkjandi Evrópumeistari spilar á heimavelli og samhliða leiknum yrði opnunarhátíð, eins og þekkist á stórmótum landsliða, með tónlistaratriðum og þess háttar.
Þetta yrði þá eini leikur kvöldsins á þriðjudegi. Aðrir leikir umferðarinnar færu svo fram á miðvikudegi og fimmtudegi. Þar með yrði enn meira gert úr þessum opnunarleik og öllu því sem honum fylgir.
Þessi áform eru hluti af áætlun UEFA til að auka tekjur af Meistaradeildinni. Inni í þessari áætlun eru einnig áform um að fá stórar streymisveitur, svo sem Amazon og Netflix, að borðinu til að tryggja sér sýningarréttinn á stærstu leikjum keppninnar.
Markmið UEFA er að tekjur af Meistaradeildinni verði um 4,3 milljarðar punda á ári.