Um er að ræða fyrstu skrefin í friðaráætlun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Í staðinn fyrir gíslana munu Ísraelsmenn sleppa um tvö þúsund palestínskum föngum sem eru í haldi í Ísrael. Þrettán öðrum lifandi gíslum var svo sleppt úr haldi nú á tíunda tímanum í morgun.
Breska ríkisútvarpið, BBC, varpaði í morgun ljósi á það hvaða sjö gíslar það voru sem sleppt var fyrst úr haldi í morgun.
Eitan starfaði sem öryggisvörður á Nova-tónlistarhátíðinni þegar hann var tekinn til fanga af vopnuðum Hamas-liðum. Faðir hans sagði í viðtali eftir að hann var tekinn föngum að hann hafi bjargað tugum manna áður en hann var tekinn föngum. Í febrúar 2025 sagði fjölskylda Eitans að hún hefði fengið staðfestingu á því að hann væri á lífi. Þremur mánuðum síðar sögðu foreldrar hans að gísl sem hafði verið með honum í neðanjarðargöngum á Gasa-svæðinu hefði lýst því hvernig Eitan var „talsmaður gíslana gagnvart fangavörðunum“ og „hann hefði lyft andanum hjá gíslum“ í afar erfiðum aðstæðum.
Alon er með ísraelskt, þýskt og serbneskt ríkisfang. Myndband frá Hamas á sínum tíma sýndi þegar hann var tekinn til fanga á Nova-tónlistarhátíðinni. Alon sást ekki aftur í öðru myndbandi fyrr en í ágúst 2025 og fékkst þá staðfesting að hann væri á lífi.
Gali og Ziv eru tvíburabræður sem voru numdir á brott frá Kibbutz Kfar Aza ásamt nágranna sínum, Emily Damari. Ziv var haldið fanginni með Emily í 40 daga áður en þau voru aðskilin. Emily var sleppt í janúar 2025 í tengslum við síðasta vopnahlé. Fjölskylda Gali og Ziv sagði að Emily hefði verið tjáð af öðrum gíslum sem sleppt var snemma árs 2025 að bræðurnir væru enn á lífi.
Guy var á Nova-hátíðinni með bróður sínum, Gal. Gal tókst að komast undan vopnuðum árásarmönnum en Guy var tekinn til fanga. Í síðasta mánuði birti Hamas myndband sem sýndi Guy og annan gísl, Alon Ohel, sem fjallað er um hér að framan, ekið um Gaza-borg í lok ágúst, þegar ísraelski herinn undirbjó árás þar.
Matan var hermaður í ísraelska hernum og var í hópi viðbragðsaðila sem komu að aðgerðum á Nova-hátíðinni. Skriðdreki sem hann var í varð fyrir árás nálægt landamærunum að Gasa þann 7. október 2023. Hann komst lífs af úr árásinni en var handsamaður af Hamas-liðum. Gíslar sem sleppt var úr haldi fyrr á þessu ári sögðu að hann hefði þjáðst af ómeðhöndluðum brunasárum og sýkingum meðan hann var í haldi.
Omri var numinn á brott frá heimili sínu í Nahal Oz. Eiginkona hans, Lishay, sagði að hún hafi síðast séð hann þegar honum var ekið burt í eigin bíl. Hún og dætur þeirra hjóna, Roni og Alma, voru ekki teknar með honum. Í apríl 2025 birti Hamas myndband sem sýndi Omri halda upp á 48 ára afmælið sitt og fékkst þá staðfesting að hann væri á lífi.