fbpx
Mánudagur 13.október 2025
433Sport

Gylfi Þór í ítarlegu einkaviðtali: Hamingjusamur Íslandsmeistari sem vill komast aftur í landsliðið – „Mitt álit skiptir engu máli, Arnar velur hópinn“

Hörður Snævar Jónsson
Mánudaginn 13. október 2025 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gylfi Þór Sigurðsson, besti landsliðsmaður í sögu Íslands, varð Íslandsmeistari með Víkingi fyrir rúmri viku síðan. Hann segir pressuna sem hann setti á sjálfan sig hafa verið þess virði og að síðustu dagar hafi verið ótrúlega skemmtilegir. Gylfi yfirgaf Val í febrúar með nokkrum látum, hann vildi burt og Víkingar voru reiðubúnir að borga metfé fyrir Gylfa. Hann stendur nú uppi sem Íslandsmeistari og gerir upp tímabilið í ítarlegu viðtali við 433.is.

Gylfi, sem er 36 ára gamall, var að vinna sinn fyrsta titil á ferlinum, ferli sem hefur verið glæstur. Mörg ár í ensku úrvalsdeildinni þar sem hann var einn besti miðjumaður deildarinnar, hann hefur sama eldmóð og áður og áhorfendur í Bestu deildinni hafa tekið eftir því í sumar.

„Bara geggjuð, yndislegt að ná settu markmiði. Frá því að ég kom til félagsins, undirbúningstímabilið og allt tímabilið, þá hefur þetta verið markmiðið. Frábært fyrir klúbbinn að verða meistari og fá þessa sömu meistaraleið í Evrópu og Blikar fengu núna. Það skiptir miklu máli fyrir klúbbinn, það er spennandi að fara þá leið á næsta tímabili,“ sagði Gylfi Þór þegar við settumst niður með honum á heimavelli Víkings á föstudag.

Gylfi setti sviðsljósið á sjálfan sig með þeim látum sem voru í febrúar þegar hann fór frá Val. Fann hann fyrir pressu að klára dæmið með Víkingum? „Þannig séð, það hefur gert það sætara. Áhættan og allt sem gerðist, fyrir mig sjálfan var það sætt. Þú ert að keppa við sjálfan þig, markmiðið hjá liðinu var þetta. Þú ert sáttur með að ná okkar markmiðum, það er það sem situr eftir,“ segir Gylfi sem er þekktur fyrir að vera rólegur og yfirvegaður.

Valur sem Gylfi yfirgaf var lengi vel á toppi deildarinnar, Gylfi segir þá staðreynd ekkert hafa truflað sig. „Nei, ekki þannig, við byrjuðum rólega en vorum á toppnum í smá tíma. Við vorum ekkert að hugsa um það að vera á toppnum þá, það var í maí. Það skiptir ekki neinu máli þá, svo þegar við vorum í öðru eða þriðja sæti þá skipti það ekki máli heldur. Við urðum bara að vinna leiki og sækja úrslit, hugsa um okkur sjálfa. Toppa á réttum tíma, sem við gerðum. Þá yrðu þetta úrslitin.“

Skipt um hlutverk á miðju tímabili:

Það tók Víking nokkurn tíma að finna rétta hlutverkið fyrir Gylfa, hann var framarlega á miðsvæðinu en það virtist ekki henta. Um mitt sumar var hann færður aftar á miðsvæðið og þá fór hann að blómstra og liðið á sama tíma.

„Við ræddum það, ég og Sölvi (Ottesen, þjálfari liðsins), eftir fyrstu leikina. Mér fannst það sjálfum, ég fékk lítið boltann og var lítið í færum. Það var auðvelt að dekka mig. Síðan breytum við. Ég færði mig neðar á miðjuna, auðveldara að komast í boltann og það hentaði mér töluvert betur. Undir lokin þá var meira undir, þegar úrslitakeppnin var að byrja og fleiri á vellinum. Þá var þetta mikið meira skemmtilegra, þegar það er meira undir. Mér leið mjög vel í síðustu leikjunum,“ segir Gylfi.

Hann segir tölfræði sína, mörk eða stoðsendingar, ekki skipta miklu máli. Hann hafi valið Víking af því að hann vildi vera í þeim sporum að vinna titla.

„Hvort ég skori tíu mörk í Bestu deildinni eða 30 þegar ég er hættur, skiptir mig litlu máli. Hvort sem ég spila framar eða aftar, mig langar að vinna. Mig langaði að upplifa þetta, þessa síðustu daga. Þetta er búið að vera skemmtilegt, þegar ég spila aftar á miðjunni þá er ég ekki að fara að komast í jafnmörg færi. Maður er meira fyrir utan teiginn, mér leið mjög vel og þetta hentaði vel. Þegar liðið er að vinna, þá er skemmtilegt að spila.“

Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd: DV/KSJ

Víkingur varð Íslandsmeistari með tvo leiki eftir af mótinu, hann segist feginn því að fara ekki inn í leiki gegn Breiðablik og Val þar sem liðið þyrfti að sækja sér stig.

„Við þurftum að klára þetta, ef við hefðum tapað á móti FH. Þá eru tveir leikir eftir, eiga Breiðablik og Val eftir. Það hefði ekki verið auðvelt, ef þú horfir á töfluna með mjög vænlega stöðu. Það hefði getað haft sálræn áhrif að tapa gegn FH,“ sagði Gylfi.

Gylfi hefur spilað frábærlega undanfarið og fólk haft á orði að það sæist hreinlega í andliti hans að þetta skipti hann miklu máli. „Mig langaði mig að hjálpa liðinu að vinna þetta og með mitt keppnisskap þá sást það kannski.“

Fer ekki í fýlu þó Arnar velji hann ekki

Gylfi hafði eftir fjarveru frá fótbolta í tvö náð að vinna sig aftur inn í íslenska landsliðið undir stjórn Age Hareide. Frá því að Arnar Gunnlaugsson tók við landsliðinu hefur Gylfi hins vegar ekki komist í hóp.

Viðtalið okkar við Gylfa var tekið nokkrum klukkustundum fyrir leik Íslands og Úkraínu á föstudag. Var hann fúll yfir því að vera ekki að undirbúa sig fyrir þann leik? „Það væri auðvitað mjög skemmtilegt, nei nei, ekkert fúll. Þetta er bara staðan og við höldum áfram,“ sagði Gylfi Þór en hvernig horfir hann á stöðu sína gagnvart landsliðinu?

„Ég horfi bara á stöðuna á mjög einfaldan hátt, ég er ekki í hóp, ég vil vera í hóp. Það er bara að halda áfram að æfa og spila eins vel og ég get. Vonandi enda ég í hóp, þetta er mjög einfalt. Ég er ekki hættur, maður verður að reyna að vinna sig inn í hópinn.“

Frammistaða Gylfa með Víkingi hefur verið þess eðlis að margir stuðningsmenn hafa kallað eftir hans nærveru í landsliðinu. „Ég bara veit það ekki, síðasta mánuðinn eða tvo hefur allur fókus verið á Víking og deildina. Ég hef lítið verið að fylgjast hvað strákarnir eru að gera erlendis, hvort þeir séu að spila mikið eða spila vel. Mitt álit skiptir engu máli, þjálfarinn velur hópinn. Ég verð bara að halda áfram.“

Gylfi hefur lifað fyrir landsliðið í mörg ár, er sá neisti eitthvað að minnka? „Nei, örugglega bara meiri. Mig langar svo mikið að spila fyrir landsliðið, að vera ekki í hóp verður ekki til þess að ég gefist upp eða fari í fýlu. Ég mun reyna að halda mér í góðri æfingu, reyni að bæta í ef eitthvað er. Þetta hefur ekki haft neikvæð áhrif á mig,“ segir Gylfi.

Margt annað kemur fram í spjallinu sem má heyra hér að ofan og neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Í gær

Segir stöðuna á Íslandi slæma – „Aldrei verið slakari“

Segir stöðuna á Íslandi slæma – „Aldrei verið slakari“
433Sport
Fyrir 2 dögum

Segir Halldóri eiga að vera sýnd þolinmæði nema þetta gerist í vetur

Segir Halldóri eiga að vera sýnd þolinmæði nema þetta gerist í vetur
433Sport
Fyrir 2 dögum

Sverrir orðlaus eftir leik – „Getum sjálfum okkur um kennt“

Sverrir orðlaus eftir leik – „Getum sjálfum okkur um kennt“
433Sport
Fyrir 2 dögum

Elías: „Ein varsla og fimm mörk, það er ekki frábært“

Elías: „Ein varsla og fimm mörk, það er ekki frábært“
433Sport
Fyrir 2 dögum

Arsenal braut reglur gegn Manchester United og fær sekt

Arsenal braut reglur gegn Manchester United og fær sekt
433Sport
Fyrir 2 dögum

Síðasti kaflinn á ferli Giroud

Síðasti kaflinn á ferli Giroud