fbpx
Mánudagur 13.október 2025
Fréttir

Ásakanir ganga á víxl meðal fasteignasala og byggingafélagsins – Á milli stendur ekkja sem er búin að selja ofan af sér

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 10. október 2025 17:02

Mynd: Unslash.com

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hjónin Atli Þór Albertsson og Guðný Ósk Sigurgeirsdóttir sem reka fasteignasöluna Stofuna furða sig á vinnubrögðum annarrar fasteignasölu sem kom að kauptilboði móður Guðnýjar. Móðirin taldi sig vera búna að fá samþykkt kauptilboð hjá fasteignasölunni Hraunhamri í íbúð í fjölbýlishúsi sem Byggingafélagið Landsbyggð byggði.

Því neita bæði eigandi Hraunhamars og eigandi byggingafélagsins, þar sem seljandinn hafi aldrei undirritað kauptilboðið. Báðir viðurkenna þó að upplýsingagjöf til tengdamóður Atla hefði mátt vera betri. Segist eigandi Hraunhamars ekkert skilja í þeim hjónum, og segir þau stunda atvinnuróg enda í beinni samkeppni við sig. 

Hjónin röktu málið í færslu á Facebook fyrr í dag. Þar kemur fram að konan hafi tekið ákvörðun um að minnka við sig íbúð, og greiðslubyrði um leið, enda komin á lífeyri og ein um að standa straum af kostnaði heimilisins.

„Nýverið drap tengdamóðir mín á dyr sem oft áður en í þetta skiptið var bros og léttir á svip hennar. Það var ánægjulegt að sjá eftir erfitt ár þar sem hún þurfti að kveðja eiginmann sinn og lífsförunaut til 50 ára í Sumarlandið. Þetta gekk ákaflega nærri henni og hafði deyft brosmildi hennar svo um munaði“, skrifar Atli í færslunni.

Atli Þór Albertsson



Farið var í hefðbundna leit að íbúð, en tengdamóðir Atla vildi helst halda áfram búsetu í Setberginu í Hafnarfirði og svo heppilega vildi til að nýtt fjölbýlishús hafði risið í hverfinu.

Tengdamóðirinn kvittaði undir kauptilboð með uppsettu verði og fékk frest til að selja sína íbúð hjá fasteignasölunni Hraunhamar.

„Þar kom eign upp í og keðja myndaðist sem olli titringi um tíma en að endingu gekk allt smurt. Fasteignasalan er látin vita að fyrirvarar séu uppfylltir og hægt sé að ganga frá kaupunum en í stað þess að heyra glaðværa rödd fasteignasala sem hefur selt íbúð þá gerist þetta… eitthvað sem engan óraði fyrir.

Í stað þess að heyra „til hamingju“ er sagt, „því miður eignin er seld öðrum!“„Ef það gengur ekki upp hjá hinu fólkinu þá geturðu keypt hana EN hún kostar núna 4 milljónum meira.“

Spyr Atli hvernig þetta sé hægt „hvort tilboð tengdamóður hans sé ekki gilt þar til seljandi segir því upp ef farið er yfir tilboðsfrestinn eins og TILGREINT ER í samningnum?

„Svo því sé haldið til haga þá var  fyrirvarinn hennar uppfylltur 2 virkum dögum síðar og ekkert heyrðist frá verktaka eða fasteignasölu um að fella tilboðið niður. En við höfðum ekki áhyggjur því það er fátt eins erfitt og að sniðganga gerða samninga hvað þá undirritaða af báðum aðilum. 

Hins vegar kom í ljós að fasteignasalan hafði ALDREI látið seljanda kvitta undir tilboðið. En engu að síður ræst kaupandann af stað í að selja ofan af sér. Já þú last rétt. Henni er talin trú um að hún sé með gildan samning í höndunum sem er svo notað gegn henni vegna fégræðgi verktakans og hræðilegum vinnubrögðum fasteignasölunnar þegar hún er krafin um hærri greiðslu.“

Atli bendir á að fasteignasalan hafði í ferlinu nokkrum sinnum samband við þau til að athuga hvernig salan á íbúðinni gengi, fasteignasalan gæti því ekki borið því fyrir sig að hafa ekki vitað stöðu mála.

Atli segir að eins og klúðrið hafi ekki verið nóg, þá hafi þarna komið í ljós að: rétt um viku eftir að hún skrifar undir kauptilboðið sitt var eignin SELD ÖÐRUM. Beint ofan í hennar samning.

„Fasteignasalan virðist þannig hafa veðjað á að hennar sala myndi klikka og tekið sénsinn. Hvaða önnur skýring gæti legið að baki. Fólkið sem gerir tilboð grunlaust um að annað tilboð sé í gildi greiðir að vísu 4 milljónum meira. Kosta heilindi heillar fasteignasölu ekki meira en söluþóknun af auka 4 milljónum? En ef það er ekki tilfellið er þá kannski bara enginn á fasteignasölunni starfi sínu vaxinn? Og ef það er ekki skýringin hver er hún þá?“

Segir Atli fasteignasöluna benda á verktakann og verktakinn á fasteignasöluna. „Verktakinn er erfiður“, „fasteignasalan er bara að klúðra og ber ábyrgð“. Báðir henda hvorum öðrum hiklaust undir vagninn en skeyta hvorugir um konuna sem er bundin samningi um að afhenda íbúðina sína eftir 1 og hálfan mánuð þó hún viti ekkert hvert hún eigi að fara.

Um tengdamóður sína segir Atli að hún sé ekki bara „af sterkara efni en viðkomandi verktakar og fasteignasalar heldur er hún heiðvirð, stendur í lappirnar og stendur við samninga og gefin loforð þó hún verði húsnæðislaus, þökk sé ykkur, í kjölfarið.  Ísland í dag þarf meira á fólki eins og henni að halda á meðan ykkar líkir mega missa sín.“

Segist Atli vonast til að tekið verði upp skilvirkara eftirlitskerfi með fasteignasölum sem mun ef vel tekst til kippa fólki sem svona vinnubrögð viðhafa af markaði. Segir hann að ef um mannleg mistök sé að ræða, þá sé rétt að viðurkenna þau og standa við áður gefin loforð og samning eða bæta henni þetta einhvern veginn. Einnig ef að þetta sé hinum aðilanum að kenna þá segir Atli lag að hætta viðskiptum við hann.

„Eða vigtar kannski krónan meira en heilindin þegar upp er staðið?“

Segir hann engan í málinu hafa beðið tengdamóður hans afsökunar á stöðunni sem henni var komið í.

„Enginn. Það eitt og sér segir meira en flest. Verði ykkur að góðu því afleiðingar gjörða ykkar breytast ekki þó höfðinu sé stungið í sandinn.“

Furðar sig á að hjónin hafi farið með málið á Facebook 

Vísir fjallaði um málið fyrr í dag og birti tvær fréttir um, þá seinni með svörum eigenda Hraunhamars og byggingafélagsins með fyrirsögninni Mjög leiðin­legt mál en til­boðið hafi aldrei verið sam­þykkt

Í samtali við Vísi segir Helgi Gíslason hjá Byggingafélaginu Landsbyggð að upplýsingagjöf til konunnar hefði mátt vera betri. Eftir standi að seljandi hafi ekki verið búinn að samþykkja tilboð. Hann segir miður að Atli Þór og Guðný Ósk hafi ákveðið að reka málið á samfélagsmiðlum og að fjölmiðlar fjölluðu um það. „Þessi ágæta kona er bara í langri keðju sem hefur tekið mjög langan tíma að selja. Hún var ekki að klárast og ég undirritaði ekki tilboðið við hana,“ segir Helgi, sem segir málið einfalt, hann hafi ekki viljað samþykkja tilboð í eignina.

„Þetta er ekki flókið. Það voru engin viðskipti í gangi. Tilboðinu var ekki tekið.“

Um er að ræða nýtt fjölbýlishús við Stekkjarberg í Hafnarfirði. 

Telur hann Atla og konu hans stunda atvinnuróg gegn Hraunhamri, enda séu þau í beinni samkeppni sem fasteignasalar. Því hafna hjónin. Þau segja móður Guðnýjar hafa fengið skýr skilaboð um að tilboðið hennar, um uppsett verð, hafi verið samþykkt. Helgi segir að þau sem löggiltir fasteignaeigendur eigi að vita betur og hefðu átt að ganga á eftir því að seljandi samþykkti kauptilboðið skriflega.

Í samtali við Vísi segist Helgi Jón Harðarson eigandi fasteignasölunnar Hraunhamars í Hafnarfirði undrast málið og botni ekkert í kollegum sínum í fasteignabransanum að vaða fram með ásakanir og að þau hjónin ekki hringt eitt símtal í sig áður en þau hafi vaðið fram á Facebook með frásögn sína.

Fjölbýlishúsið við Stekkjarberg 11a í Setberginu í Hafnarfirði fyrir miðju.

Segir það þekkta aðferð að sverta aðra til að taka ekki ábyrgð 

Atli segir svör eigenda Hraunhamars og eigenda byggingafélagsins þekkta aðferð til að taka ekki ábyrgð, heldur benda á aðra. Segir hann engan hafa enn rætt við tengdamóður hans, sem er nú búin að selja ofan af sér, án þess að vera með annað heimili.

„Margur heldur mig sig…

Nýjasta útspil gerenda í fasteignamáli tengdamóður minnar er að bera blak af sér með því að sverta aðra og færa þannig ábyrgð af sér. Það er þekkt aðferð.

Verktakinn skýtur sig svo í fótinn þegar hann gefur til kynna að hún hafi verið í langri keðju og því hafi hann ekki skrifað undir. Engin keðja var í gangi þegar Hraunhamar segir að málið sé klárt svo þarna nýtir verktakinn sér vinnubrögðin til að skýla sér. 

Meira að segja er seilst svo langt að tala um atvinnuróg sem er auðvitað það eina sem svona aðilum dettur í hug í stað þess að líta í eigin barm. En hvorugur aðilinn nefnir hvað gerðist. 

Hraunhamar fylgdist með henni selja ofan af sér og hefur ekkert gert síðan þetta kom upp svo ef Helgi í Hraunhamri undrast færslu um málið á samfélagsmiðlum þá ætti hann kannski að sinna betur því sem gerist innan hans eigin garðs.

Enn hefur enginn þessara aðila talað við hinn hlunnfarna kaupanda sem er tengdamóðir mín. Ætli þeir vilji nokkuð horfast í augu við hana?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Villi Birgis eys Kristján Loftsson lofi – „Það eru fleiri svona menn sem vantar í íslenskt samfélag“

Villi Birgis eys Kristján Loftsson lofi – „Það eru fleiri svona menn sem vantar í íslenskt samfélag“
Fréttir
Í gær

Fékk símann aldrei til baka úr viðgerð en var allt of seinn að gera eitthvað í því

Fékk símann aldrei til baka úr viðgerð en var allt of seinn að gera eitthvað í því
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Ég hef ekkert sérstaklega vinsælar skoðanir en ég reyni að setja það í grínbúning“

„Ég hef ekkert sérstaklega vinsælar skoðanir en ég reyni að setja það í grínbúning“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 2025 – Jafnrétti er ákvörðun

Viðurkenningarhátíð Jafnvægisvogarinnar 2025 – Jafnrétti er ákvörðun