Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins, er með böggum hildar yfir því að stórlega hefur dregið úr því að skáldsögur Halldórs Laxness séu kenndar í framhaldsskólum landsins. Blaðið fjallar um þetta í gær og í dag og er mikið niðri fyrir.
Svarthöfði er mikill aðdáandi Laxness og viðurkennir fúslega að honum þykir þetta miður en ekki getur hann sagt að þetta komi honum alveg að óvörum. Einhvern tímann hefði það hins vegar þótt fréttnæmt að Morgunblaðið og Sjálfstæðismenn hefðu áhyggjur af því að Laxness væri á útleið úr skólum. Sú var tíð að Mogginn og Íhaldið höfðu ákaflega litlar mætur á Nóbelsskáldinu. Raunar var það áður en Nóbelinn kom í hús.
Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, gat ekki á sér heilum tekið vegna þessa og þaut upp í ræðustól Alþingis til að lýsa hneykslun sinni á því að hægt væri að útskrifast sem stúdent án þess að hafa lesið skáldsögu eftir Laxness til prófs.
Ýmsir hafa orðið til að tjá sig um þessa þróun og umfjöllun Morgunblaðsins og margir bent á að ekki þurfi það að koma neinum á óvart þótt dregið sé úr kennslu í Laxness. Þar kemur margt til. Þrátt fyrir að vera Nóbelsverðlaunahafi er Laxness langt í frá eini frambærilegi rithöfundurinn sem Ísland hefur alið. Bókmenntasögu þjóðarinnar lauk heldur ekki með Laxness. Meira en hálf öld er síðan síðasta skáldsaga hans kom út og á þeirri hálfu öld hafa komið fram margir ansi hreint góðir rithöfundar sem vert er að kynna fyrir framhaldsskólanemum.
Einhverjir hafa bent á að e.t.v. sé samt ein meginorsök fyrir því að framhaldsskólar eru að draga úr lestri nemenda á Nóbelsskáldinu. Framhaldsskólinn er ekki lengur fjögurra ára skóli. Fyrir nokkrum árum var hann styttur í þrjú ár og það er einmitt síðan þá sem Laxness virðist á hraðri útleið. Þegar fjórðungur skólans er tekinn út verður eitthvað undan að láta. Það verður að minnka námsefnið.
Það er því ekki úr vegi að benda á þá sem stóðu að því að stytta framhaldsskólann – þeir bera ábyrgð á því að íslenskir framhaldsskólanemendur fá ekki að lesa Laxness. Og hverjir voru það svo sem styttu framhaldsskólann og flæmdu Laxness út úr skólunum? Jú, það var Illugi Gunnarsson, þáverandi menntamálaráðherra, og Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra. Óumdeilanlega báðir Sjálfstæðismenn.
Svarthöfði man eftir því að stytting framhaldsskólans var harðlega gagnrýnd á sínum tíma og á það bent að ef stytta ætti nám til stúdentsprófs ætti að gera það í grunnskólanum en ekki framhaldsskólanum. En engu tauti varð komið við ráðherra Sjálfstæðisflokksins. Styttingin skyldi verða á framhaldsskólastiginu en ekki í grunnskólanum. Hvers vegna? Aldrei svöruðu ráðherrarnir því en hin raunverulega ástæða fór ekki fram hjá neinum. Grunnskólinn er rekinn af sveitarfélögunum en framhaldsskólinn er kostnaðarliður hjá ríkinu.
Stytting framhaldsskólans var nefnilega ekki gerð til að bæta nám til stúdentsprófs eða gera það skilvirkara. Styttingin var niðurskurðaraðgerð í ríkisfjármálunum – sparnaður fyrir fjármálaráðherra en ekki skólamál. Svo einfalt er það.
Svarthöfði er á því að Morgunblaðið ætti að spyrja núverandi og fyrrverandi forystumenn Sjálfstæðisflokksins út í það hvers vegna verið er að úthýsa Laxness úr framhaldsskólum landsins. Ekki það að von sé á innihaldsríkum svörum. Það yrði bara svo gaman að heyra spunann um það hvernig allt sem gerðist á þeirra vakt er nýju ríkisstjórninni að kenna en ekki þeim sjálfum.