fbpx
Miðvikudagur 08.október 2025
Fréttir

Karen svarar gagnrýnendum Möggu Stínu – „Hvað finnst þér um þessi lögbrot?“

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 8. október 2025 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karen Kjartansdóttir almannatengill svarar þeim einstaklingum sem tjáð hafa sig i morgun vegna fréttar um Margréti Kristínu Blöndal hvort að þeim finnist eðlilegt að ræna óbreyttum borgurum.

Í morgun greindi DV frá því að áhöfn skipsins Conscience og átta annarra báta sem sigldu undir merkjum Frelsisflotans (e.Freedom Flotilla) áleiðis til Gaza hefði verið rænt af Ísrael á alþjóðlegu hafsvæði. Um borð var Margrét Kristín Blöndal, betur þekkt sem Magga Stína. Hafa aðstandendur hennar biðlað til íslenskra stjórnvalda að beita sér með öllum mætti fyrir því að ísraelsk stjórnvöld leysi hana úr haldi tafarlaust sem og aðra í áhöfn Frelsisflotans.

Sjá einnig: Ákall frá fjölskyldu Möggu Stínu: „Við höfum misst allt samband“ – Var í skipi sem var stöðvað í nótt

„Til fólksins sem ég sé tjá sig þennan morguninn um að eðlilegt sé að ræna óbreyttum borgurum fyrir að reyna að koma mat og lyfjum til sveltandi fólks því mögulega hafi það brotið lög (sem það gerði ekki):

Ef við segjum að það sé í lagi að handtaka fólk á flotillu af því það brýtur lög, þá verðum við líka að horfa á lögbrotin sem flotillan er að bregðast við. Alþjóðadómstóllinn hefur kveðið á um að Ísrael verði að tryggja óhindraðan aðgang mannúðaraðstoðar til Gaza. Lokun og hafnbann brýtur gegn alþjóðalögum og hefur verið skilgreint sem ólögmæt sameiginleg refsing gegn íbúum.“

Margrét Kristín Blöndal

Segir Karen í færslu sinni að auk þess eru til fjölmörg önnur lögbrot sem Ísrael er sakað um: 

„brot á Genfarsamningunum með því að flytja eigin borgara inn á hernumin svæði og með loftárásum sem brjóta gegn hlutfallsreglu og skyldu til að aðgreina hernaðarleg skotmörk frá óbreyttum borgurum. Brot á alþjóðalögum með því að beita refsiaðgerðum gegn borgurum með lokun og skorti á mat, vatni, lyfjum og eldsneyti. Brot á hafrétti með hafnbanni sem stangast á við frelsi siglinga og miðar í raun að því að svelta almenning. Brot á mannréttindasáttmálum Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal Barnasáttmálanum, með því að skerða rétt til lífs, heilbrigðis og menntunar. Hundsun á fjölda ályktana Öryggisráðs og Allsherjarþings SÞ sem fordæma hernám, landtöku og landtökubyggðir. Dómar Alþjóðadómstólsins frá 2004, 2024 og bráðabirgðaúrskurðir 2024–2025 sem Ísrael hefur hundsað, þar sem kveðið er á um að aðskilnaðarmúrinn og hernámið séu ólögmæt og að Ísrael verði að tryggja að mat, vatn og lyf berist Gaza.“

Spyr Karen þá sem tjá sig um fréttir af Margréti Kristínu og aðgerðum Ísraela:

„Hvað finnst þér um þessi lögbrot? Er virkilega eðlilegt að kalla það lögbrot þegar borgarar reyna að koma mat og lyfjum til sveltandi fólks, en ekki þegar ríki brýtur svona kerfisbundið gegn alþjóðalögum?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt