Thylane er dóttir franska fótboltamannsins Patrick Blondeau og frönsku fjölmiðlakonunnar Veroniku Loubry. Thylane byrjaði að sitja fyrir fimm ára gömul og vakti snemma athygli fyrir fegurð sína. Hún vakti fyrst heimsathygli árið 2011, þá tíu ára gömul, er hún sat fyrir í franska Vogue.
Blondeau starfar enn sem fyrirsæta og er auk þess áhrifavaldur á samfélagsmiðlum og rekur sitt eigið snyrtivörumerki sem kallast Enalyht. Á dögunum vakti fyrirsætan þó athygli þegar hún birtist á tískusýningu hjá merkinu Miu Miu í París þar sem tískuvika fer nú fram. Fólk á samfélagsmiðlum telur ljóst að fegurð Blondeau sé ekki alfarið náttúruleg. Fyrirsætan þvertekur þó fyrir þetta og birti færslu nýlega á Instagram þar sem hún sagðist vera þreytt á sögusögnum um meintar fegrunaraðgerðir.
„Ég veit að í þessari kynslóð á fólk það til að gangast snemma undir hnífinn en ég hef ekki látið gera neitt. Þið getið skoðað myndir af mér frá því ég var yngri og ekkert hefur breyst. Fólk elskar að standa í samanburði og skálda hluti upp en það að ég noti farða og varalitablýant þýðir ekki að ég hafi látið eiga við varirnar eða andlitið á mér. Á einhverjum tíma verðum við að hætta þessum getgátum,“ skrifaði fyrirsætan.