Haukur Arnþórsson stjórnsýslufræðingur segir það ómaklegt að þrýsta á þingflokk Samfylkingarinnar í máli þriggja vikna gamalla tvíbura sem var vísað úr landi í síðustu viku ásamt foreldrum sínum og tveggja ára bróður. Haukur segir ljóst að hvorki þingflokkur Samfylkingarinnar né ráðherrar flokksins geti átt nokkra lögformlega aðkomu að málinu.
Fjölskyldan er frá Dagestan sem tilheyrir Rússlandi en fjölskyldan kom hingað til lands í lok árs 2024 að sögn til að flýja ofsóknir rússneskra stjórnvalda. Móðir fjölskylduföðurins, systir hans og bróðir eru með varanlegt dvalarleyfi á Íslandi. Tvíburarnir eru fæddir hér á landi en taka þurfti þá með keisaraskurði. Fjölskyldunni var vísað til Króatíu en óttast er að þaðan verði henni aftur vísað til Rússlands.
Greint var frá því í fréttum Vísis að nokkurrar óánægju gætti meðal sumra þingmanna Samfylkingarinnar, þar á meðal forseta Alþingis Þórunnar Sveinbjarnardóttur, vegna málsins. Fyrrverandi þingmenn flokksins Helga Vala Helgadóttir og Oddný Harðardóttir hafa gagnrýnt þingmenn og ráðherra flokksins fyrir að bregðast ekki við í málinu.
Guðmundur Ari Sigurjónsson þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir hins vegar að málið sé ekki á borði þingflokksins og Haukur segir það laukrétt:
„Hið rétta er að um framkvæmdarvaldsverkefni er að ræða þar sem Útlendingastofnun tekur ákvörðun. Guðmundur Ari hefur því rétt fyrir sér. Ákvörðuninni má skjóta til Úrskurðarnefndar útlendingamála, sem er æðsti úrskurðaraðili slíkra mála hjá framkvæmdarvaldinu. Tökum eftir að dómsmálaráðherrann, sem er yfirmaður málaflokksins, hefur enga stöðu í málinu. Ef menn eru ósáttir við niðurstöðu framkvæmdarvaldsins má kæra niðurstöðu þess til dómstóla.“
Haukur minnir á að Alþingi setji lög en sjái ekki um að framkvæma þau og hvað þá kveða upp dóma á grundvelli þeirra og það sé ekki við hæfi að þrýsta á þingflokk Samfylkingarinnar um að beita sér í málinu og ástæðurnar séu þessar:
„Fyrirkomulagið byggir á þrískiptingu valdsins og þeir sem vilja að stjórnmálamenn hafi alræðisvald eru þá mótfallnir því – eða hvað?