Málskostnefnd KSÍ getur ekkert aðhafst út í atvik sem átti sér stað í leik Víkings og FH í Bestu deild karla í gær. Ástæðan er sú að dómari leiksins dæmdi leikbrot. Þetta fékk 433.is staðfest frá Axeli Kára Vignissyni, lögfræðingi KSÍ.
Mjög athyglisvert atvik átti sér stað seint í leiknum þegar Grétar Snær Gunnarsson leikmaður FH mætti inn í teiginn í hornspyrnu, mundaði Grétar hnefana og reyndi að kýla til leikmanns Víkings.
Helgi Mikael Jónasson, þá dómari leiksins dæmdi brot en gerði ekkert meira í atvikinu. Í sjónvarpinu mátti sjá að Helgi hefði líklega átt að reka Grétar í sturtu en hann slapp með skrekkinn.
Málskostnefnd KSÍ starfar eftir reglum aga og úrskurðarnefndar, getur sú nefnd aðeins tekið atvik til greina ef dómarinn sér það ekki í leiknum og tekur ekki afstöðu til þess.
Í þessu tilviki dæmdi Helgi Mikael brot og því getur nefndin ekkert aðhafast í því. Grétar Snær þarf því ekki að óttast að málið verði tekið upp og hann þá dæmdur í leikbann.