Hekla, 25 ára, var um árabil afreksíþróttakona í frjálsum íþróttum og bjó um tíma í Texas þar sem hún lagði stund á nám við West Texas A&M háskólann og keppti fyrir hönd skólaliðsins. Þegar hún var átján ára gömul vildi hún ná lengra í greininni og ákvað að kaupa matarplan frá fitness þjálfara. Hún myndaði fljótlega óheilbrigt samband við mat og þróaði með sér átröskun sem tók yfir líf hennar. Hún hefur verið í bata síðan í byrjun árs og líður vel. Hún vill segja sína sögu til að vekja athygli á þessum falda en því miður allt of algenga sjúkdómi, hún barðist í hljóði í mörg ár og veit að það eru fleiri í sömu stöðu.
Hlustaðu á þáttinn með Heklu hér að neðan. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
Hekla hefur verið að vekja athygli á TikTok fyrir að ræða hreinskilið og hispurslaust um baráttu sína og bataferli. Hún sýnir frá því sem hún borðar í bata og minnir áhorfendur alltaf á að matur er bensín, nauðsynlegur til að halda manni gangandi.
„Þetta byrjaði þegar ég var átján ára og var farin að langa að vera geggjuð í íþróttinni minni. Ég var ekkert að pæla í mataræði eða neitt, ég var bara að æfa og átti bara heilbrigt og geggjað líf. Ég hafði samband við fitness þjálfara því ég hugsaði að mataræði hljóti að skipta mjög miklu máli og mig langaði að taka það í gegn til að verða öflugri í frjálsum,“ segir Hekla.
Hún horfði upp til atvinnukvenna í frjálsum sem voru upp til hópa grannar og vöðvastæltar. „Ég vildi verða eins og þær, en ég vissi ekki að ég væri með svona mikla fullkomnunaráráttu. Þannig að ég tók þetta alveg hundrað og tíu prósent, sem varð til þess að ég þróaði með mér mjög neikvætt samband við mat,“ segir hún.
Samkvæmt matarplaninu átti Hekla að vigta allan mat ofan í sig, sem hún samviskusamlega gerði. Hún var látin borða allt of lítið af hitaeiningum, mjög lítið af kolvetnum og fitu, sem hún vissi þá ekki að væri mjög óhollt fyrir konur. Sérstaklega konu á hennar aldri að æfa íþrótt af þeim krafti sem hún gerði. Hún treysti þjálfaranum.
„Þetta var í raun mjög einhæft og mjög óhollt. En ég vissi það ekki, því ég vissi svo lítið um næringu og bara hvað ég þurfti sem íþróttakona, verandi 185 sm á hæð.“
Þrátt fyrir að vera afreksíþróttakona í mörg ár fékk Hekla aldrei fræðslu um næringu, hvorki hér heima né í Texas. Hún ákvað því að fara sjálf á stúfana og leita sér upplýsinga. Hún áttaði sig á því að hún væri að borða of lítið en þarna var óheilbrigður hugsunarháttur búinn að festa sér í sessi í huga hennar og átti bara eftir að stigmagnast.
Hekla segir að um eitt og hálft ár hafi liðið þar til hún byrjaði á matarplaninu og var komin með átröskun sem var búin að taka yfir líf hennar. Hún var grennri, komin með six-pakk og fékk reglulega hrós fyrir útlit sitt.
„Það dreif mig áfram, mig langaði ekkert að stoppa,“ segir hún.
Hún stimplaði mat góðan og vondan, var með hitaeiningar á heilanum og vigtaði hvert gramm ofan í sig. Á þessum tíma æfði hún stíft, oft tvisvar til þrisvar á dag og eins og hefur áður komið fram er hún hávaxin, 185 sm á hæð. Svo magnið sem hún var að borða var allt of lítið, sem hafði mikil áhrif á líkamsstarfsemi hennar. Þegar hún bjó úti í Texas missti hún tíðahringinn í rúmt ár.
„Ég er alveg með fullkomnunaráráttu, sem ég reyndar er búin að vinna úr og er ekki með mikið lengur, en á þessum tíma var ég bara unglingur og þetta var allt of mikið,“ segir hún.
Hekla forðaðist félagslegar aðstæður í kringum mat, eins og að fara í veislur, út að borða og svo framvegis. Fókusinn fór frá árangri og á útlit.
Aðspurð hvort hún hafi náð einhvers konar botni sem fékk hana til að leita sér aðstoðar segir Hekla: „Já, ég var allt í einu, alls ekki oft, en af og til var ég byrjuð að kasta upp.“
„Þannig að þegar ég borðaði einhvern mat, og borðaði kannski of mikið af honum… ekki einu sinni of mikið en ég borðaði einhvern mat sem ég var búin að stimpla sem „vondan“ þá framkallaði ég stundum uppköst,“ segir hún.
„En það sem ég hugsaði alltaf var: Þetta er ekki það oft, þetta er ekki að gerast það oft að ég þurfi hjálp. Ég er ekki það veik. Þú veist, ég er ekki það mikill sjúklingur. Ég er ekkert með átröskun. Af því ég heyrði sögur annarra sem voru mikið verri en mín saga. Þannig þá hélt ég að ég væri bara í góðum málum. En það er ekki svoleiðis. Það skiptir ekki máli hversu langt þú ert komin inn í þetta, eða hvort þú sért að pæla hvort þú sért á leiðinni. Fáðu hjálp. Ég hefði átti að gera það strax. En ég vissi ekki betur og ég bara prófaði mig áfram. Flestir biðja ekki um hjálp strax.“
@itshekla Desember 22: vannærð, aum með átröskun💔. Desember 2024: vel nærð, sterk að læknast❤️ heilbrigt samband við sjálfan þig og mat er MIKLU dýrmætara en að eltast við útlit. Ef þú ert í sömu sporum þá lofa ég þér að þú getur læknast. Ef ég gat það, getur þú það líka. næring er núna minn besti vinur. #íslensktiktok #fyrirþig #íslenskt #edrecovery ♬ Running Song by Ellie Nanni demo – ellie nanni
Hekla segir að það hafi verið mjög erfitt að segja móður sinni frá ástandinu en mjög frelsandi á sama tíma og þakkar hún viðbrögðum móður sinnar fyrir það síðarnefnda.
„Hún tók þessu eins vel og hægt var, ég var svo þakklát fyrir hana. Ég var svo stressuð,“ segir Hekla og ræðir nánar um viðbrögð móður sinnar í þættinum.
Hún ræðir einnig um átröskunina, tímann úti í Texas, bataferlið, að opna sig um allt á TikTok og mikið fleira. Hlustaðu á þáttinn hér.