fbpx
Miðvikudagur 08.október 2025
EyjanFastir pennar

Thomas Möller skrifar: Hvað ef ESB væri ekki til?

Eyjan
Miðvikudaginn 8. október 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir nokkrum árum kom út bókin Hvað ef? eftir Val Gunnarsson. Í bókinni veltir hann fyrir sér hvað hefði gerst í mannkynssögunni ef til dæmis Róm hefði ekki fallið, Hitler hefði unnið seinni heimsstyrjöldina, Bítlarnir hefðu aldrei verið til og ekkert hrun hefði orðið á Íslandi.

Í þessari frumlegu bók er kafað í lykilatburði í mannkynssögunni og skoðað hvernig þeir hefðu hugsanlega getað farið öðruvísi og hvað hefði þá getað gerst í framhaldinu.

Í dag gætum við ímyndað okkur hvað hefði gerst ef Kennedy hefði ekki farið til Dallas í nóvember árið 1963, ef Pútín hefði ekki komist til valda árið 1999, ef Trump hefði ekki lifað skotárásina í júlí árið 2024 af eða ef Eyjafjallajökull hefði ekki gosið árið 2010 og hrundið af stað ferðamannabylgjunni sem enn stendur yfir.

Í þessum pistli spyr ég hvað ef Evrópusambandið hefði ekki orðið til?

Hvað er ESB og EES

Evrópusambandið (ESB) er samstarfsvettvangur 27 ríkja sem hafa komið á fót sameiginlegum markaði, þar sem gilda samræmdar reglur, og samræmt stefnur sínar á fjölmörgum sviðum allt frá sameiginlegri tollskrá til sameiginlegrar umhverfisstefnu. Tuttugu þessara ríkja nota evru sem sameiginlegan gjaldmiðil.

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) urðu til fyrir tilstilli ESB. Ísland er aðili að báðum þessum samtökum með samningi við ESB.

Rúmlega 450 milljónir búa innan ríkja ESB eða um 6% af mannfjölda heimsins.

Landsframleiðsla aðildarríkja ESB er um 30% af landsframleiðslu heimsins. Nokkur stærstu iðnveldi og útflutningshagkerfi heimsins eru í ESB og um helmingur ríkustu 40 þjóða heims eru í ESB, EES og EFTA.

Um 1,5% meðal hagvöxtur er innan ESB landanna og vextir eru um 2% að meðaltali seinni hluta ársins 2025. Atvinnuleysi er að meðaltali um 5.9% í ESB löndum meðan það er 5,3% á Íslandi í ágúst síðastliðnum.

Ferðafrelsi, mannréttindi, umhverfisgæði, matvælaöryggi, heilsugæsla, menntunarmöguleikar og lífsgæði innan Evrópulanda eru með því besta sem gerist í heiminum í dag.

ESB hefur tryggt frið innan landamæra ESB landa í rúm 70 ár. Samstaða ESB landa gagnvart öryggisógn Rússa hefur sameinað þjóðir Evrópu meira en nokkru sinni fyrr og sameinað herstyrk ESB landa í baráttunni um frið í Evrópu.

Kostir Evrópusamstarfsins eru því mjög margir. Yfirgnæfandi meirihluti íbúa í ESB er ánægður með veru landsins í sambandinu og enn fleiri eru hlynntir notkun evrunnar og telja hana hafa fært íbúum hagsæld og stöðugleika.

Evrópa án ESB

Enskur blaðamaður fór í ferðalag um tuttugu lönd í Evrópu rétt áður en evran var tekin upp og skrifaði fræga grein um ferðalagið sem fjallaði um kostnaðinn við að skipta gjaldmiðli við landamæri.

Hann tók með sér 1000 pund og skipti þeim í hvert sinn í gjaldmiðil landsins sem hann fór til. Í nokkrum löndum þurfti hann að greiða allt að 6% í þjónustugjöld. Eftir að hafa heimsótt löndin voru aðeins 93 pund eftir eða um 9,3% af upprunalegu upphæðinni.

Ef ESB væri ekki til í dag væru hin 27 ríki sambandsins með eigin gjaldmiðil sem þyrfti að skipta í gjaldmiðil þess lands sem vörur eða þjónusta væri flutt út til með tilheyrandi kostnaði eins og dæmisagan hér að ofan lýsir.

Þau væru öll í gengisfellingarkapphlaupi til að geta jafnað hugsanlegan óhagstæðan viðskiptajöfnuð milli landanna. Þau lönd sem flytja út meira en inn væru stöðugt að hækka gengi síns gjaldmiðils.

Í dag eru 20 lönd ESB með evru sem er notuð við öll viðskipti með vörur og þjónustu. Enginn skiptikostnaður er við viðskipti milli landanna. Án evrunnar væru evrulöndin 20 hvert fyrir sig hefði sína vaxtastefnu í stað sameiginlegrar stefnu sem Evrópski seðlabankinn hefur umsjón með. Stýrivextir eru í dag 2% meðan þeir eru 7,5% á Íslandi. Húsnæðisvextir á Íslandi eru um 9,5% meðan þeir eru um 3,3% í evrulöndum að meðaltali.

Innan ESB landa eru engir tollar á vörum, frjálst flæði er á vörum, þjónustu og fólki. Án ESB væri hvert ríki með sína eigin tolla, sitt landamæraeftirlit með vegabréfaskoðunum og flæði vinnuafls væri líklega mjög takmarkað. Umhverfisreglur eru samræmdar sem tryggja meðal annars að allar stendur ESB landa eru hreinar enda er mengunarlöggjöf ESB mjög ströng.

Bretland losnaði við þessa löggjöf eftir Brexit enda eru strendur landsins í dag þær skítugustu í Evrópu.

Um 61% Breta vilja í dag að landið verði hluti af ESB aftur. Aðeins 11% telja að Brexit hafi fært landinu betri lífskjör.

Ísland án EES

Ef ESB hefði ekki orðið til, hefðu hvorki EFTA né EES samningurinn orðið til. Háir tollar væru á útflutningsvörum okkar og við þyrftum að sækja um vegabréfsáritanir á ferðalögum til Evrópulanda, þó ekki til Norðurlandanna þar sem sér reglur gilda um slíkt.

Þátttaka Íslands í EFTA og EES  hefur fært íslenskt efnahagslíf inn í nútímann með frjálsum viðskiptum, frjálsu flæði vinnandi fólks og opnum landamærum hvað varðar vinnuafl og ferðalög.

Án EES væru flugsamgöngur háðar heimildum aðildarlanda og flugfrelsi takmarkað. Símtöl og nettengingar væru mun dýrari þegar við Íslendingar ferðumst til Evrópulanda. Í nýlegri ferð minni til Sviss tífaldaðist síma- og netkostnaður minn enda er landið ekki í ESB.

Án EES væru um 72 þúsund ríkisborgara EES landanna ekki við störf á Íslandi. Það hefði þýtt mun minni hagvöxt frá því að EES samningurinn tók gildi í ársbyrjun 1994. Ferðaþjónustan hefði ekki getað vaxið án þessa fólks og skortur á vinnuafli í iðnaði og verslun hefði hugsanlega ýtt verðbólgunni í hæstu hæðir hjá okkur og er hún næg fyrir samt.

Ísland á heima í ESB

Því er hollt fyrir okkur Íslendinga að skoða það í hvaða stöðu okkar land og Evrópa öll væri í ef ekki nyti Evrópusambandsins við í dag.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gefa þjóðinni kost á að ákveða hvort aðildarviðræðum við ESB verði haldið áfram og þeim lokið með aðildarsamningi sem verður síðan borinn undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Innganga Íslands í ESB yrði þannig lokakafli í Evrópusamvinnu landsins okkar sem hófst með EFTA samningnum og síðar EES samstarfinu.

Með inngöngu verður Ísland fullgildur meðlimur í alþjóðasamstarfi sem tryggir öryggi landsins enn betur og setur tóninn fyrir framfarir og aukna hagsæld í landinu okkar á næstu áratugum.

Höfundur er stjórnarmaður í Evrópuhreyfingunni www.evropa.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Lof is blænd – Arctic?

Nína Richter skrifar: Lof is blænd – Arctic?
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tíðindalaus uppskeruhátíð eða hvað

Þorsteinn Pálsson skrifar: Tíðindalaus uppskeruhátíð eða hvað
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Nína Richter skrifar: Hvað gerði þessi kona með Drake?

Nína Richter skrifar: Hvað gerði þessi kona með Drake?
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að geta bara gert eitt í einu

Þorsteinn Pálsson skrifar: Að geta bara gert eitt í einu
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli

Thomas Möller skrifar: Stöðugleiki skiptir mestu máli
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Hálf öld frá því að miðillinn sem öllu breytti hóf göngu sína

Hálf öld frá því að miðillinn sem öllu breytti hóf göngu sína
EyjanFastir pennar
04.09.2025

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar

Þorsteinn Pálsson skrifar: Utanríkispólitík stjórnarandstöðunnar
EyjanFastir pennar
03.09.2025

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Manneskjur – ekki hugmyndafræði