fbpx
Laugardagur 27.september 2025
Fréttir

Víetnami fær ekki stöðu þolanda mansals – Blekktur og látinn vinna launalaust

Jakob Snævar Ólafsson
Laugardaginn 27. september 2025 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ónefndur einstaklingur frá Víetnam, sem ekki kemur fram af hvaða kyni er, fær ekki dvalarleyfi hér á landi sem þolandi mansals en kærunefnd útlendingamála hefur staðfest þessa niðurstöðu Útlendingastofnunar. Víetnaminn vann í heilsulind og segist hafa verið blekktur til að koma hingað til lands. Segist hann einnig hafa unnið launalaust megnið af þeim tíma sem hann vann í heilsulindinni.

Eins og greint var frá í vikunni í Kveik hefur fjöldi snyrtistofa, sem sumar hverjar eru í eigu Víetnama sem réðu landa sína til starfa, verið til rannsóknar meðal annars vegna gruns um mansal og að starfsmönnum hafi ekki verið greidd laun í samræmi við vinnuframlag.

Sláandi afhjúpun Kveiks á starfsemi snyrtistofa – Skortur á starfsleyfum og þrifnaði og grunur um vinnumansal og vændi

Minna fór þó fyrir umfjöllun um heilsulindir í þessu samhengi. Víetnaminn sem hér um ræðir kærði synjun Útlendingastofnunar, á umsókn um dvalarleyfi á grundvelli þess að hann væri fórnarlamb mansals, til kærunefndar útlendingamála.

Sérfræðiþekking

Víetnaminn lagði fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar í janúar 2023 og fékk útgefið dvalarleyfi með gildistíma til mars 2024. Leyfið var endurnýjað einu sinni með gildistíma til mars 2025. Í janúar 2025 lagði Víetnaminn hins vegar fram umsókn um dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals. Umsóknin var byggð á því að hann væri hugsanlegur þolandi mansals þar sem hann hafi komið til landsins eftir að hafa greitt tilteknum aðila háa fjárhæð til þess að fá dvalarleyfi á grundvelli starfs sem krefst sérfræðiþekkingar.

Víetnaminn sagðist hafa ráðinn til starfa hjá tiltekinni heilsulind þar sem hann hafi starfað í um fjóra mánuði en einungis fengið greidd laun fyrir einn mánuð. Fyrirtækið hafi svo orðið gjaldþrota. Hann hafi verið blekktur með stórfelldum hætti og atvinnurekandi beitt hann svikum auk þess sem hann hafi lítið fengið greitt fyrir vinnu sína. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti Útlendingastofnun þær upplýsingar að málið væri rannsakað sem fjársvik en ekki mansal og Víetnaminn hefði ekki stöðu þolanda mansals.

Með vísan til þessa var umsókn Víetnamans um dvalarleyfi hér á landi sem hugsanlegt fórnarlamb mansals hafnað.

Fjölskyldan tók lán

Víetnaminn kærði synjunina til kærunefndar útlendingamála í maí síðastliðnum.

Í kærunni kom meðal annars fram hann hafi greitt háa fjárhæð til tiltekins aðila sem hafi boðið honum starfið í heilsulindinni hér á landi en fjölskylda hans í Víetnam hafi tekið lán fyrir hann. Þegar hann hafi komið til landsins hafi hann ekki hafið störf fyrr en eftir tvo mánuði. Hann hafi starfað í um fjóra mánuði en einungis fengið greidd laun fyrir einn mánuð og hafi unnið langa vinnudaga. Fyrirtækið hafi svo orðið gjaldþrota og hann hafi fengið annað starf hjá snyrtistofu og sótt hafi verið um atvinnuleyfi fyrir hann á þeim grundvelli.

Vinnumálastofnun hafi þá óskað eftir prófskírteini til grundvallar atvinnu- og dvalarleyfis. Víetnaminn sagðist ekki hafa ekki getað lagt fram slíkt prófskírteini en fyrrum vinnuveitandi hafi aflað gagna fyrir fyrri umsókn hans um dvalarleyfi fyrir starf sem krefst sérfræðiþekkingar. Víetnaminn hafi farið til lögreglu og gefið skýrslu vegna málsins og farið í viðtal í Bjarkarhlíð. Hann hafi verið blekktur með stórfelldum hætti og atvinnurekandi beitt hann svikum auk þess sem hann hafi lítið fengið greitt fyrir vinnu sína. Af þeim sökum megi færa fram rök fyrir því að hann sé hugsanlega þolandi mansals.

Lögreglan

Víetnaminn gerði athugasemd við rannsókn lögreglu á málinu og að það væri rannsakað sem fjársvik. Benti hann á að á undanförnum mánuðum hafi fjöldi einstaklinga leitað til ASÍ og stéttarfélaga sem séu með dvalarleyfi á grundvelli sérfræðiþekkingar. Um sé að ræða umfangsmikla svikastarfsemi og þyki honum óvarlegt að afgreiða málin með þessum hætti. Víetnaminn sagðist vera í  mikilli neyð og hafa verið hnepptur í skuldaánauð. Misneytingin í máli þessu snúist ekki einungis um óeðlilega langan vinnutíma heldur að fá ekki nægilega mikla vinnu. Taldi hann að rannsókn lögreglu væri ekki forsenda þess að veita umþóttunarleyfi fyrir hugsanlega þolendur mansals heldur væri umræddur tími ætlaður fyrir þolendur til að ná áttum og eftir atvikum aðstoða við að upplýsa málið.

Rannsókn

Í niðurstöðu kærunefndar útlendingamála segir að við mat á því hvort útlendingur geti átt rétt, samkvæmt lögum, á dvalarleyfi sem þolandi mansals sé litið til upplýsinga frá lögreglu um hvort viðkomandi hafi slíka stöðu í máli til rannsóknar hjá lögreglu sem þolandi mansals. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu sé svo ekki í þessu tilfelli heldur sé málið rannsakað sem fjársvik.

Þá hafi Víetnaminn gefið skýrslu í málinu. Það sé ekki forsenda fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli þessara ákvæða laga um útlendinga að lögreglurannsókn fari fram. Markmið þeirra sé meðal annars að veita þolendum og hugsanlegum þolendum mansals svigrúm til að taka upplýsta ákvörðun um samstarf við yfirvöld við rannsókn málsins. Þar sem málið hafi þegar hlotið meðferð og skoðun yfirvalda verði þó að taka mið af niðurstöðu lögreglu um hvort Víetnaminn teljist þolandi eða hugsanlegur þolandi mansals. Með vísan til þeirrar niðurstöðu lögreglu að mál hans sæti rannsókn sem fjársvikamál, en ekki sem huganlegt mansal, sé ekki hægt að fallast á að Víetnaminn uppfylli skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli þess að hann sé eða sé hugsanlega þolandi mansals.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hafþór Júlíus skorar á Jake Paul í hnefaleikum – Paul hafi aðeins boxað við „litla menn“

Hafþór Júlíus skorar á Jake Paul í hnefaleikum – Paul hafi aðeins boxað við „litla menn“
Fréttir
Í gær

Ákæra tvær kólumbískar konur fyrir að auglýsa vændi á Akureyri

Ákæra tvær kólumbískar konur fyrir að auglýsa vændi á Akureyri