Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkurborgar um að bakhús á lóð við Leifsgötu, sem reist var um miðja 20. öld án tilskilinna leyfa, skuli rifið. Vísar nefndin meðal annars til þess að nokkrir áratugir hafi liðið án þess að borgin hafi gripið til nokkurra aðgerða vegna þessarar óleyfisframkvæmdar.
Nefndin hafði áður fallist á að niðurrifinu yrði frestað á meðan kæran var til meðferðar. Forsaga málsins er nokkuð löng. Bakhúsið var byggt árið 1946 við bílskúr sem fyrir var en en án leyfis frá Reykjavíkurborg. Í dag hafa bílskúrinn og bakhúsið eigið húsnúmer. Árið 1997 sótti þáverandi eigandi um að bakhúsið og bílskúrinn yrðu afmörkuð sem séreign. Byggingarnefnd borgarinnar samþykkti þá umsókn en þó með þeim skilyrðum að í því fælist ekki heimild til búsetu í bakhúsinu. Sú ákvörðun var kærð til forvera úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, sem breytti ákvörðuninni þannig að hún yrði skilyrðislaus.
Árið 2003 sótti þáverandi eigandi bakhússins um leyfi til að innrétta íbúð í því en byggingarfulltrúi borgarinnar synjaði umsókninni.
Íslandsbanki eignaðist bakhúsið á nauðungaruppboði 2013. Fjórum árum síðar spurðist bankinn fyrir um það hjá borginni hvað væri hægt að gera við húsið og að lánað hefði verið út á það í þeirri trú að húsið væri nothæft. Svörin voru þau að brunavörnum í bakhúsinu væri líklega ábótavant og það væri ansi nálægt því fjölbýlishúsi sem stendur á sömu lóð. Því væri sennilega best fyrir bankann að láta rífa húsið til að losna við að greiða gjöld af því.
Það gerði bankinn hins vegar ekki og seldi bakhúsið árið 2019 til núverandi eiganda en í kaupsamningnum voru gerðir ýmsir fyrirvarar meðal annars að engin leyfi lægju fyrir um að nýta húsið í núverandi ástandi og að enginn leyfi hefðu verið veitt fyrir framkvæmdum.
Sama ár kröfðust íbúar í fjölbýlishúsinu á lóðinni að byggingarfulltrúi léti fjarlægja bakhúsið enda hefði það verið reist í óleyfi. Það uppfyllti ekki kröfur um brunavarnir og auk þess færi þar fram leyfislaus atvinnustarfsemi. Málið var til meðferðar hjá byggingarfulltrúa fram til 2021 sem hafnaði því að aðhafast nokkuð en sú ákvörðun var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sem ógilti hana vegna, meðal annars, skorts á rökstuðningi.
Byggingarfulltrúi Reykjavíkur sneri fyrri ákvörðun við í febrúar á þessu ári og tilkynnti eigandanum að hann skyldi fjarlægja bakhúsið þar sem ekkert byggingarleyfi hefði verið veitt og brunavörnum væri ábótavant. Eigandinn andmælti því á grundvelli þess að húsið hafi fengið að standa síðan það var byggt og að það væri engin brunahætta frá því. Byggingarfulltrúi breytti ákvörðuninni ekki og þá kærði eigandinn hana til nefndarinnar.
Eigandinn vísaði meðal annars til þess að lögfræðingur hjá Reykjavíkurborg hefði tjáð honum að ekki lægi fyrir kvöð um að rífa bakhúsið og á þeim forsendum hefði hann keypt það og bílskúrinn. Ákvörðun byggingarfulltrúa væri óskýr, húsið væri búið að standa í 80 ár, þinglýstur eignarréttur væri til staðar og fyrir lægi samþykki eigenda íbúða í fjölbýlishúsinu frá 1998 sem og eignaskiptayfirlýsing. Sömuleiðis hafi aldrei komið fram hvernig brunavörnum væri ábótavant og honum aldrei gefið færi á að gera úrbætur.
Reykjavíkurborg vildi meina í sínum andsvörum að alltaf hafi tilraunum til að fá leyfi, til byggja bakhúsið og eftir að það var byggt án leyfis að fá það samþykkt, verið hafnað. Borgin andmælti því að afmörkun bílskúrsins og bakhússins sem séreignar, frá lokum 20. aldar, hafi falið í sér samþykki um að bakhúsið fengi að standa um ókomna tíð. Borgin andmælti því að eigendur íbúða í fjölbýlishúsinu hefðu veitt samþykki sitt fyrir bakhúsinu á þessum tíma, í eignaskiptayfirlýsingu. Þótt innheimt hefðu verið fasteignagjöld af bakhúsinu fæli það ekki í sér samþykki borgarinnar um að það mætti standa og áðurnefnd samskipti eigandans við lögrfræðing hjá borginni hefðu heldur ekki falið í sér loforð um að ekkert yrði aðhafst í málinu. Bakhúsið hefði verið byggt í óleyfi og væri þar með ólöglegt og því ætti að rífa það.
Borgin andmælti þeim fullyrðingum eigandans að hafa sýnt af sér aðgerðaleysi í málum bakhússins. Gerðar hafi verið ítrekaðar athugasemdir, sem og kröfur um stöðvun framkvæmda og úrbætur á eigninni, auk þess að benda á að framhald málsins gæti falið í sér beitingu þvingunarúrræða. Eigandinn hafi hins vegar aldrei orðið við tilmælum byggingarfulltrúa eða sýnt fram á úrbætur af neinu tagi. Lagði borgin loks áherslu á að bakhúsið væri ekki í samræmi við aðalskipulag og væri þar að auki of nálægt fjölbýlishúsinu til að uppfylla ákvæði byggingarreglugerðar um brunavarnir.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála segir að við mat á því hvort stjórnvald hafi með tómlæti fyrirgert rétti til svo mikillar íhlutunar megi líta meðal annars til þess hversu langur tími sé liðinn. Ljóst sé að bakhúsið hafi verið reist á fimmta áratug síðustu aldar án leyfis og borgin aldrei veitt samþykki fyrir því en hins vegar hafi fyrst núna verið krafist niðurrifs. Þar af leiðandi standi til þess rök að eigandi hússins hafi mátt gera sér væntingar um að ekki yrði gerð krafa um að það yrði fjarlægt. Að mati nefndarinnar verði við þessar aðstæður að gera sérstaklega strangar kröfur til rökstuðnings.
Segir nefndin að borgin vísi meðal annars til brunahættu af húsinu og vísi til ákvæða um brunavarnir í núgildandi byggingarreglugerð en ekki hafi verið tekið tillit til aldurs hússins, aðgerðaleysis byggingaryfirvalda gagnvart því um áratugaskeið, eða hvort bæta megi úr brunavörnum með öðrum hætti. Bersýnilega hafi ekki verið gripið til annarra úrræða sem möguleg séu samkvæmt lögum um mannvirki.
Þar af leiðandi hafi rökstuðningi fyrir ákvörðun byggingarfulltrúar Reykjavíkur um niðurrif verið svo ábótavant að fella verði hann úr gildi.
Ljóst er því að bakhúsið fær að standa enn um sinn.