fbpx
Þriðjudagur 16.september 2025
Fréttir

Uppnám í Hafnarfirði – Félagi eldri borgara úthýst um næstu áramót

Jakob Snævar Ólafsson
Þriðjudaginn 16. september 2025 19:30

Fáni Félags eldri borgara í Hafnarfirði blaktir við hún við húsnæði þess að Flatahrauni 3 en eftir 23 ár þar stendur félagið nú frammi fyrir því að þurfa að finna nýtt húsnæði. Mynd/Skjáskot/Já.is.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Nokkurt uppnám hefur skapast hjá Félagi eldri borgara í Hafnarfirði og í bæjarstjórn bæjarins vegna uppsagnar Verkalýðsfélagsins Hlífar á leigusamningi um húsnæði í eigu þess. Hafnarfjarðarbær hefur leigt húsnæðið af Hlíf fyrir Félag eldri borgara, síðan í upphafi þessarar aldar, en félagið hefur haldið uppi mjög öflugu félagsstarfi. Bæjarstjórn hefur samþykkt að skipa starfshóp í samráði við félagið til að finna lausn á húsnæðismálum þess en það missir núverandi húsnæði um næstu áramót. Í bréfi formanns Félags eldri borgara til bæjarráðs kemur fram að að bærinn hafi verið upplýstur fyrir um ári síðan um áform Hlífar en átta mánuðir hafi hins vegar liðið þar til félagið hafi verið látið vita. Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn hafa gagnrýnt þetta en meirihluti bæjarstjórnar vísar hins vegar til þess að formleg uppsögn hafi ekki borist fyrr en í þessum mánuði. Segir meirihlutinn einnig að þegar Hlíf léði fyrst máls á uppsögn hafi engar tímasetningar verið nefndar.

Málið var mikið rætt á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku. Með fundargerð fundarins fylgir bréf Valgerðar Sigurðardóttur formanns Félags eldri borgara í Hafnarfirði, sem sent var fyrir hönd stjórnar félagsins, til bæjarráðs, í júlí síðastliðnum.

Brá

Valgerður segir í bréfinu að henni hafi verið mjög brugðið þegar henni hafi verið tilkynnt af deildarstjórna hjá Hafnarfjarðarbæ, í júní síðastliðnum, að Verkalýðsfélagið Hlíf væri búið að segja upp samningi við bæinn um húsnæðið sem er staðsett að Flatahrauni 3. Í bréfi Valgerðar kemur fram að þar fari öll innanhússtarfsemi félagsins fram en húsnæðið sé 607,6 fermetrar að stærð.

Valgerður segir í bréfinu að skrifað hafi verið undir samninginn árið 2001 en húsnæðið afhent ári síðar. Síðar hafi verið bætt við rými í kjallara hússins. Valgerður gerir síðan grein fyrir starfsemi félagsins og segir meðal annars að innan þess starfi 20 sjálfstæðir hópar en 70 manns eigi sæti í nefndum félagsins sem skipuleggi starfsemi þess. Segir Valgerður að á síðustu 9 árum hafi fjöldi félagsmanna tvöfaldast, farið úr um 1.200 í 2.400. Í húsnæðið í Flatahrauni komi að jafnaði 6-700 eldri borgarar í hverri viku til að sækja sér félagsskap, afþreyingu eða ýmis konar námskeið.

Félagið var stofnað 1968 og Valgerður segir það vera elsta félagið á Íslandi sem starfi sérstaklega að velferð og réttindum eldra fólks.

Hún segir að búið sé að skipuleggja starfið allt fram í mars á næsta ári en að öllu óbreyttu missir félagið húsnæðið að Flatahrauni um áramótin. Valgerður segir í bréfinu að félagið sé mjög þakklát fyrir stuðning Hafnarfjarðarbæjar við starf þess í gegnum árin.

Ekki látin vita

Í bréfi Valgerðar kemur einnig fram að orðrómur hafi borist til félagsins um að Hlíf hefði komið að máli við bæjaryfirvöld um mánaðamótin september/október 2024 og rætt um aðstöðu félagsins að Flatahrauni 3. Hins vegar hafi ekki verið haft samband við stjórn félags eldri borgara til að segja frá þessum samtölum sem stjórnin telji ámælisvert af hálfu Hafnarfjarðarbæjar.

Segir enn fremur í bréfinu að Valgerður sjálf hafi ásamt gjaldkera félagsins átt fund í febrúar síðastliðnum með bæjarstjóra og sviðstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs. Þar hafi meðal annars verið rætt um hvort tími væri kominn til að gera viðlíka rekstrarsamning við Félag eldri borgara eins og við íþróttafélögin í bænum en á fundinum hafi ekki komið til tals að félagið þyrfti að flytja úr húsnæðinu að Flatahrauni 3 eða að einhverjar breytingar væru í aðsigi. Í lok bréfsins áréttar Valgerður að mikilvægt sé að leiða húsnæðismál félagsins til lykta sem fyrst til að tryggja að starfsemi þess geti haldið áfram með óbreyttum hætti.

Þann 4. september síðastliðinn var staðan hins vegar óbreytt en í ályktun sem samþykkt var á opnum félagsfundi Félags eldri borgara var lýst yfir óánægju með stöðu mála og að það væri lítill tími til stefnu til að finna lausnir og tryggja starfsemina áður en rýma þarf húsnæðið um áramótin. Áréttað var að skjótra lausna væri þörf og farið fram á að skipaður yrði starfshópur félagsins og bæjarins til að finna öruggt húsnæði fyrir starfsemina.

Fyrir neðan allar hellur

Þegar málið var rætt á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku lögðu bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar, sem er í minnihluta, fram tillögu sem var áþekk ályktun félags eldri borgara. Lagði Samfylkingin til að skipaður yrði starfshópur með fulltrúum frá bæjarráði, öldungaráði og Félagi eldri borgara.

Eftir umræður um tillöguna lagði Valdimar Víðisson bæjarstjóri og oddviti Framsóknarflokksins í bæjarstjórn fram tillögu þar sem tekið var undir ályktun eldri borgara og að honum yrði falið að vinna málið áfram og undirbúa skipan starfshóps í samstarfi við stjórn Félags eldri borgara. Tillaga um skipan hópsins yrði síðan lögð fyrir næsta fund bæjarráðs.

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins felldi tillögu Samfylkingarinnar. Lögðu fulltrúar síðastnefnda flokksins þá fram harðorða bókun og gagnrýndu meðal annars hversu seint félag eldri borgara var látið vita:

„Framkoma bæjaryfirvalda, bæjarstjóra og meirihlutans við þetta öfluga félag eldri borgara er fyrir neðan allar hellur. Húseigandi lét fulltrúa bæjarins vita af uppsögn húsaleigusamnings fyrir ári síðan og það áréttað á fundum með bæjarstjóra í janúar og maí. Enn og aftur eru svörin á þann veg að málið sé í vinnslu en raunin er sú að allur síðasti vetur var látinn líða án þess að eldri borgurum væri kynnt staða málsins og mikilvægi þess að leita lausna.“

Óljóst fyrst

Í ræðu sinni á fundi bæjarstjórnar sagði Guðmundur Árni Stefánsson, oddviti Samfylkingarinnar, að hann hefði fengið upplýsingar um að Hlíf hefði látið bæjaryfirvöld vita hvað til stæði fyrir ári síðan og að Rósa Guðbjartsdóttir þáverandi bæjarstjóra hefði verið upplýst um það.

Valdimar sagði í sínum andsvörum að þegar verkalýðsfélagið hefði fyrst nefnt, fyrir ári, við bæjaryfirvöld að það færi að koma að uppsögn leigusamningsins hefðu engar tímasetningar verið nefndar í því samhengi og þar af leiðandi hafi verið ákveðið að reyna að leysa málið „mjúklega“ án þess að blanda Félagi eldri borgara strax í málið. Reynt hafi verið að finna nýtt húsnæði ef til þess kæmi að félagið þyrfti að flytja. Þegar liðið hafi  verið á þetta ár hafi Hlíf hins vegar farið að þrýsta á um að leigusamningnum yrði sagt upp og þá hafi verið kominn tími til að upplýsa Félag eldri borgara um stöðuna. Neitaði Valdimar fullyrðingum um að ekkert hefði verið unnið í málinu á því ári sem liðið er síðan Hlíf lét fyrst vita til stæði að segja samningnum upp.

Ekki formlega sagt upp

Í kjölfarið lagði meirihlutinn fram bókun þar sem áréttað var að formleg uppsögn hafi ekki borist fyrr en sama dag og umræddur bæjarstjórnarfundur fór fram, en það var 10. september síðastliðinn.

Meirihlutinn skorar á Hlíf að draga uppsögnina til baka eða að minnsta kosti leyfa félagi eldri borgara að vera í húsnæðinu þar til yfirstandandi starfsári lýkur.

Gagnrýndi meirihlutinn þennan stutta fyrirvara Hlífar og sakaði Guðmund Árna um að beina gagnrýni sinni í ranga átt og að hlífa verkalýðsfélaginu þar sem framkvæmdastjóri þess, Guðmundur Rúnar Árnason, sé fyrrum bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar og fyrrverandi bæjarstjóri.

Því neitaði Guðmundur Árni alfarið í andsvörum sínum og sagði um ódýra „skítapólitík“ að ræða af hálfu meirihlutans sem væri að breiða yfir vanhæfni sína og beina spjótum sínum að ósekju að Hlíf þar sem 7.000 íbúar Hafnarfjarðar væru félagsmenn.

Málið var síðan tekið fyrir á fundi fjölskylduráðs í morgun. Tekið var undir samþykkt bæjarstjórnar um starfshóp og áskorun til Hlífar um að hætta við uppsögnina eða fresta henni og sviðstjóra falið að setja í forgang vinnu innan sviðsins í samráði við bæjarráð og bæjarstjóra til að tryggja að ekki komi til þess að rof verði í starfsemi Félags eldri borgara.

Fulltrúi Samfylkingarinnar í ráðinu, Árni Rúnar Þorvaldsson, lagði fram bókun þar sem meirihlutinn er gagnrýndur fyrir samráðsleysi við Félag eldri borgara í Hafnarfirði(FEBH) og að kjörnir fulltrúar minnihlutans hafi ekki fengið að sjá áðurnefnt bréf frá félaginu fyrr en tveimur mánuðum eftir að það var sent til bæjarráðs. Segir síðan í bókuninni um hversu langan tíma tók að láta félagið vita:

„Um leið og fulltrúar leigusala upplýstu bæinn um fyrirhugaða uppsögn leigusamningsins fyrir tæpu ári síðan átti að setja málið í ferli og vinna að lausn þess í samstarfi við FEBH. Það var því miður ekki gert og nú hefur langur tími farið til spillis. Nú er mikilvægt að þessi starfshópur, sem bæjarstjórn samþykkti að setja á fót á síðasta bæjarstjórnarfundi og skipaður verður fulltrúum frá bænum og fulltrúum eldri borgara, taki til starfa sem fyrst og vinni hratt og örugglega að lausn húsnæðismála fyrir öfluga og mikilvæga starfsemi FEBH til framtíðar.“

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Fyrrverandi fallhlífarhermaður fyrir dóm vegna morða sem áttu sér stað fyrir rúmum 50 árum

Fyrrverandi fallhlífarhermaður fyrir dóm vegna morða sem áttu sér stað fyrir rúmum 50 árum
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Framhaldsskólanemi gagnrýnir Höllu fyrir fund með forseta Kína – „Einstaklega grimmur einræðisherra“

Framhaldsskólanemi gagnrýnir Höllu fyrir fund með forseta Kína – „Einstaklega grimmur einræðisherra“
Fréttir
Í gær

MAST beitti bónda of mikilli hörku – Tók sig loksins á eftir langan tíma

MAST beitti bónda of mikilli hörku – Tók sig loksins á eftir langan tíma
Fréttir
Í gær

Furðar sig á því að geta fengið íslenskt vodka á lægra verði í Bandaríkjunum en í Fríhöfninni

Furðar sig á því að geta fengið íslenskt vodka á lægra verði í Bandaríkjunum en í Fríhöfninni
Fréttir
Í gær

Íslenskur sérfræðingur hefur efasemdir um sönnunargögn í einu alræmdasta fjöldamorðingjamáli Bretlands

Íslenskur sérfræðingur hefur efasemdir um sönnunargögn í einu alræmdasta fjöldamorðingjamáli Bretlands
Fréttir
Í gær

Níðingurinn sem er grunaður í hvarfi Madeleine að losna úr fangelsi – Neitar að vera yfirheyrður vegna málsins

Níðingurinn sem er grunaður í hvarfi Madeleine að losna úr fangelsi – Neitar að vera yfirheyrður vegna málsins