Fyrstu árin ólst Kara upp hjá ömmu sinni og afa. Hún og móðir hennar bjuggu þar þar til Kara var sjö ára og fluttu síðan í Breiðholtið. Kara var greind með aðskilnaðarkvíða en hún átti mjög erfitt með að fara til pabba síns aðra hvora helgi. Henni fannst hún ekki hluti af fjölskyldunni, heldur upplifði sig meira eins og gestur. Hún grét í hvert skipti sem hún fór og átti erfitt með svefn. Hún lýsir því hvernig hún sagði engum hvernig henni leið og var þetta byrjunin á endurteknu mynstri þar sem hún byrgði allt inni.
Hlustaðu á þáttinn hér að neðan.
Kara, sem er 32 ára, var lögð í einelti á netinu á unglingsaldri. Þarna voru samfélagsmiðlar nýtt fyrirbæri og fór eineltið mestmegnis fram á síðum eins og BlogCentral og MySpace. Þar létu skólafélagar hennar viðbjóðsleg orð falla í garð Köru.
„Það var verið að segja: „Þú ert ógeðsleg, dreptu þig. Við drepum þig ef þú drepur þig ekki“ og alls konar ógeðslegir hlutir,“ segir Kara.
Móðir Köru prentaði út margar síður þar sem mátti sjá hrottalegt einelti og fór með þær til skólastjórans, en skólastjórinn sagðist ekkert geta gert því þetta væri nafnlaust, þó það væri augljóst að gerendurnir væru í skólanum.
„Ég vissi alveg hvaða hópur þetta var,“ sagði Kara. „Á þessu mómenti, þá bregst manneskja sem hefði átt að geta gripið inn í.“
Eineltið hætti þegar Kara fór að hanga með eldra fólki og byrjaði að reykja.
„Í lok áttunda bekkjar, byrjun níunda bekkjar, þá fór ég að leita á Hlemm. Og Hlemmur var ekki mathöll þá,“ segir hún og segir að þar hafi verið pönkarar, mikil neysla og fólk á fylleríi.
Kara kynntist þar fólki og skipti alveg um gír. Hún byrjaði að koma með alls konar töflur í skólann sem hún hafði fengið á Hlemmi.
„Þarna hætti eineltið, þannig að þetta var í rauninni það sem ég gerði þegar að allt hitt brást,“ segir Kara.
„Svo bara strax í níunda bekk var ég komin í bullandi neyslu. Þá var ég byrjuð að taka amfetamín og kókaín og drakk rosalega mikið og einmitt bara taka einhverjar töflur,“ segir Kara.
„Málið var, ég upplifði svo mikið frelsi og ég upplifði líka að ég tilheyrði. Og mér fannst ég vera með einhvern skjöld. Eins og með eineltið, um leið og ég byrjaði í neyslu og byrjaði að koma með töflur í skólann og vera svona brjálæðingur, þá hætti eineltið. Þá sá ég að þetta væri skjöldurinn minn.“
Bæði foreldrar Köru og skólinn tóku eftir breyttri hegðun. „En ég var bara stjórnlaus, það var ekkert hægt að ná mér.“
Þegar Kara var í tíunda bekk byrjaði hún með eldri manni. „Hann hafði mikla líkamlega yfirburði var rosalega mikill ofbeldismaður. Hann drakk rosalega mikið og notaði mikið af hörðum efnum,“ segir Kara, sem bjó hjá honum í Árbænum. Hún rifjar upp eitt atvik þegar hún hélt að hún myndi deyja.
„Ég man að hann fór oft með mig á bar sem var á Grensásvegi. Og ég náttúrulega mátti ekki fara inn, ég var bara fimmtán ára, þannig að ég var alltaf á reykingasvæðinu með öllum körlunum sem voru þar. Og ég man eftir einu atviki þegar hann kom út af barnum, hélt í einhvern gaur og var að draga hann í burtu, og kom svo til baka einn. Ég sá að hann er með skurð á enninu, það lak blóð niður andlitið á honum og hann var að labba að mér, rosalega hratt. Og augun hans… þetta voru bara svona drápsaugu, ég var bara stjörf. Hann tók í höndina á mér, dró mig inn í bíl og keyrði af stað. Hann var náttúrulega undir áhrifum og var að keyra ógeðslega hratt. Tónlistin var í botni og ég leit á hann og hann var blóðugur í framan og starði bara áfram. Ég leit á hnúana hans á gírstönginni og þar var blóð. Ég hugsaði þarna: „Hann er að fara að drepa mig.“
Hann fór með mig heim til sín og fór með mig inn í herbergi og nauðgaði mér. Ég man í örvæntingunni að eina sem ég gat gert… hann hélt mér svo fast niðri, hélt svo fast um hálsinn á mér. Eina sem ég gat gert var að þykjast láta líða yfir mig, í von um að hann myndi stoppa. Sem virkaði auðvitað ekki.“
Stuttu eftir þetta, Kara man ekki hvort það hafi verið sama kvöld eða kvöldið eftir, var hún að flýja manninn og hljóp út. Hún ætlaði að hlaupa að strætóskýlinu í Ártúnsbrekku og taka strætó niður í bæ og leita sér þar að gistingu.
„Þetta var svo magnað, ég var að hlaupa yfir götuna og allt í einu sá ég mömmu keyra niður götuna. Það voru engir aðrir bílar, þetta var um miðnætti. Ég stoppaði á miðri götu, mamma stoppaði. Svo horfðum við á hvor aðra í nokkrar sekúndur. Og svo sagði ég bara: Fokk it, ég ætla að fara til mömmu. Ég gafst bara upp. Mamma fór með mig til pabba þar sem ég var sett í stofufangelsi.“
Aðspurð hvort það hafi virkað svarar Kara neitandi. Hún segir hlutverk foreldra mikilvægt í þessum aðstæðum og þó hún skilji viðbrögð foreldra sinna, þá hafi þetta haft þveröfug áhrif.
„Það eru náttúrulega bara mjög eðlileg viðbrögð að ætla að koma inn af krafti, bara loka unglinginn inni og taka alla stjórn. En ég held að það sem að hefði hjálpað mér, til dæmis, á þessu augnabliki þar sem mamma sótti mig við Ártúnsbrekku um miðja nótt. Í staðinn fyrir að taka mig í test og svo var gargað yfir að það fannst amfetamín í blóðinu mínu, þá hefði kannski verið betra að setjast bara með mér og spyrja: „Hvernig líður þér?“
View this post on Instagram
Líf unglingsstúlku á götunni er fullt af alls konar hættum. Kara þurfti að finna ýmsar leiðir til að vera örugg. „Það var einn einstaklingur sem var einskonar verndari minn, hann því miður dó á þessu ári. En hann kenndi mér margt og hann var svolítið alltaf að passa mig. Ég gat alltaf farið til hans og gist þar og gerði það stundum,“ segir Kara.
„En svo er rosalega mikil hætta alls staðar, sérstaklega fyrir unga stúlku.“ Kara var á þessum tíma átján ára. „Ég var bara í rifnum fötum […] ég átti föt svona hér og þar á einhverjum stöðum. En það var mikil hætta og mikil ógn í rauninni alls staðar, og sérstaklega þar sem ég var ekki að vinna og átti ekki pening. Ég var svolítið sniðug, til að vernda sjálfa mig á götunni þá eignaðist ég vini hjá Hells Angels.“
Vinskapurinn við mótorhjólagengið borgaði sig nokkrum sinnum.
„Sem dæmi þá var ég einu sinni með einhvern eltihrelli. Hávaxinn og þéttur maður sem var eitthvað veikur. Hann hafði fengið númerið mitt í einhverju partíi og var alltaf að senda mér: „Ég er með bjór handa þér“ eða „ég get boðið þér þetta og hitt.“ Svo var hann alltaf að elta mig. Ég var kannski að labba Laugaveginn og þá sá ég hann, hann var svona aðeins fyrir aftan og var að fylgjast með mér. Hann var alltaf á bak við einhverja veggi og að elta mig og ég fattaði: Þessi maður er að fara að ræna mér eða gera eitthvað við mig,“ segir Kara.
„Ég bað vini mína í Hells Angels um að tala við hann, aðeins að hræða hann. Og það virkaði.“
En þeir gátu ekki alltaf verið til staðar þegar hún lenti í vandræðum.
„Til dæmis þá var einn maður sem ég var sjálf að reyna að gera að vini mínum, af því ég vissi að hann væri mjög hættulegur. Til þess að hann gæti þá verndað mig. En ég fór heim til hans í eitt skipti og ætlaði að kaupa af honum fíkniefni. Hann átti tvo Rottweiler hunda og eftir að hann lét mig fá efnin þá króaði hann mig af hérna út í horni og hélt í Rottweiler hundana sína og gerði svona… benti á mig og gerði svona: „Urra-bíta, urra-bíta.“
Ég man að þeir voru komnir á tvo fætur og hann hló bara, hélt í hundana með taumi. Og þeir geltandi. Ég man bara, ég horfði sko á slefið á hundunum og hugsaði: „Shit, ég er að fara að vera étin lifandi.“ Og hann hló bara.“
Kara slapp en vel skelkuð eftir þetta og fór aldrei aftur þangað. Hún segir að þetta hafi verið vel þekktur einstaklingur í undirheimunum.
Kara var mest í miðbæ Reykjavíkur. Hún lýsir lífinu á götunni. „Ég fór oft bara á bari og það var bara djamm. Ef það var virkur dagur þá lokuðu barirnir klukkan eitt en um helgar þá voru einhverjir barir opnir til sex. Svo var alltaf eitthvað eftirpartí og oft einmitt hjá Hells Angels og eitthvað svona. Ég fór oft með þeim, stundum bara fólki sem ég þekkti ekki neitt. Oft voru þetta partí sem stóðu yfir í nokkra daga.“
Stundum gekk illa að finna skjól. „Þá þurfti ég bókstaflega bara að selja mig fyrir svefnstað. Það snerist um það að þeir máttu gera það sem að þeir vildu og ég fékk þá að gista. Og það var náttúrulega aldrei gaman en það var bara eitthvað sem ég vissi að ég þyrfti að gera.“
Kara undirstrikar mikilvægi þess hvernig foreldrar bregðast við. Hún hafi frekar kosið að selja sig en að fara heim í pissupróf og yfirheyrslu.
„Það að vilja frekar láta einhverja ókunnuga fullorðna menn gera það sem þeir vilja við þig, heldur en að fara heim til mömmu.“
Þetta er aðeins brot af því sem Kara upplifði á götunni og í samböndum á þessum árum. Hún ræðir það nánar í þættinum og hvernig henni tókst að verða edrú, lærði kokkinn og fann ástríðu í boxinu. Hún opnar sig einnig um andleg veikindi sem hún glímdi við á þrítugsaldri og stöðuna í dag. Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.