Frönsk kona sem grunuð er um að hafa banað eiginmanni sínum og dóttur á Edition-hótelinu í miðborg Reykjavíkur fyrr í sumar hefur verið látin laus úr gæsluvarðhaldi en úrskurðuð í farbann.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir í tilkynningu að ákveðið hafi verið að fara fram á farbann yfir konunni eftir að Landsréttur hafnaði því að framlengja gæsluvarðhald yfir henni lengur en til loka þessarar viku.
Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað konuna í tólf vikna farbann, eða til 27. nóvember, vegna rannsóknar málsins en atvikið átti sér stað um miðjan júní en fjölskyldan hafði verið á ferðalagi um landið.
Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur fallist á fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhaldskröfu yfir konunni í lok ágúst og þá farið fram yfir meginregluna um hámark 12 vikna gæsluvarðhald, en Landsréttur stytti gæsluvarðhaldið til 6. september. Vegna þessa var ákveðið að krefjast þess í stað farbanns.
Ævar Pálmi Pálmason astoðaryfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókn málsins segir í samtali við RÚV að úrskurður Landsréttar hafi sett aukna pressu á lögregluna. Ljóst er að rannsókn málsins er umfangsmikil og nær til nokkurra landa og engar líkur á að henni ljúki í lok vikunnar. Með farbanninu er því sú pressa orðin minni.