Lögreglan í Indlandi hefur handtekið mann sem er sakaður um að þykjast vera sendiherra. Maðurinn skáldaði upp lönd sem hann þóttist vera sendiherra fyrir og falsaði ljósmyndir af sér með heimsleiðtogum.
Fréttastofan AP greinir frá þessu.
Maðurinn heitir Harshvardhan Jain og er 47 ára gamall. Hann var handtekinn í Nýju Delhi, höfuðborg Indlands, þar sem hann leigði hús sem hann dulbjó sem sendiherrabústað.
Á meðal þess sem haldlagt var við handtöku og húsleit hjá Jain mátti finna bíla sem voru með fölsuðum diplótmatabílnúmerum, fölsuð innsigli indverska utanríkisráðuneytisins og nærri þrjátíu annarra landa og falsaðar ljósmyndir af Jain með hinum ýmsu stjórnmálaleiðtogum heimsins. Meðal annars Narendra Modi forsætisráðherra Indlands og Abdul Kalam forseta.
Jain þóttist ekki vera sendiherra alvöru landa heldur treysti hann á að landafræðikunnátta fólks væri ekki upp á tíu. Hann laug því að vera sendiherra ríkja á borð við Saborga, Lodonia, Poulvia og Vestur Arktíku. Hið síðastnefnda land sagði hann vera smáríki á Suðurskautslandinu sem hefði verið stofnað af bandarískum ofursta úr sjóhernum. Titlaði hann sjálfan sig sem barón.
En hvers vegna þykist maður vera sendiherra? Jú, talið er að Jain hafi gert þetta til þess að hagnast fjárhagslega. Auk þess að þykjast vera erlendur diplómati er hann grunaður um peningaþvætti, fjársvik og skjalafals. Hann er sakaður um að narra fólk til að afhenda sér peninga gegn loforði um atvinnu í heimalandi sínu að sögn lögreglunnar í héraðinu Uttar Pradesh.
Haldlagðir voru fjórir bílar á fölsuðum sendiherranúmerum, um 4,5 milljón indverskar rúpíur (63 milljónir króna) og peningaseðlar í öðrum gjaldmiðlum. Einnig 12 fölsuð vegabréf frá uppdiktuðu löndunum, 34 stimplar, 18 númeraplötur, 2 fjölmiðlaskírteini og ýmsir pappírar tengdir erlendum fyrirtækjum. Ekki er vitað hversu marga einstaklinga Jain náði að plata en ljóst er að þeir eru þó nokkrir.
Í yfirheyrslum við Jain kom í ljós að hann er ekki ruglaður einfari heldur hefur sterk sambönd við ýmsa undirheimamenn og vafasama stórbokka. Meðal annars hinn látna fjársvikamann og svindlara Chandraswami sem þóttist vera trúarleiðtogi og Adnan Khashoggi, vopnasölumann. Sjálfur hefur Jain áður komist í kast við lögin.