Við ræddum við Lilju um keppnina, fegurðardrottningarlífið, framtíðina og fleira.
Hver er Lilja Sif?
„Lilja Sif er metnaðarfull, samviskusöm og með sterkan innri kraft. Ég legg mig alltaf fram í því sem ég tek mér fyrir hendur, hvort sem það er í vinnu, keppnum eða daglegu lífi. Ég vil standa fyrir jákvæðni, hugrekki og kærleik. Og hvetja aðra til að treysta á sjálfa sig og fylgja draumunum sínum.“
Lýstu þér í þremur orðum:
„Jákvæð, dugleg og hjartahlý.“
Lilja Sif stefnir á að byrja aftur í námi í haust. „Ég er hins vegar búin með fjögur ár í sjúkraliðanum en á eftir að útskrifast. Ég er í fullri vinnu á dagdeild fyrir heilabilaða sem er mjög fjölbreytt, gefandi og skemmtilegt starf.“
Miss Supranational er alþjóðleg keppni sem er haldin árlega í Póllandi. Þetta var í sextánda skipti í ár sem hún var haldin og í þetta sinn fór hún fram í Nowy Sącz.
„Við vorum 66 konur að keppa um titilinn. Ferlið úti tók þrjár vikur og á þeim tíma vorum við í alls konar myndatökum, fórum á viðburði, skoðuðum Krakow og litla bæinn Nowy Sącz. Við fögnuðum sumrinu saman, heimsóttum listasöfn og kynntumst menningunni í Póllandi,“ segir Lilja Sif.
„Þegar nær dró að keppninni byrjuðu æfingar fyrir lokakvöldið sem var 27. júní. Það voru líka dómaraviðtöl og margt fleira í undirbúningi fyrir stóra kvöldið.“
Miss Supranational er mjög fjölbreytt keppni. „Það er svo mikið um að vera. Það var hæfileikakeppni sem margar tóku þátt í, „Supra Top Model“ og svo auðvitað „prelims“ þar sem dómararnir velja hverjar komast áfram í topp 24.“
Lilja Sif komst áfram, fyrst í 24 manna hópinn og svo í topp 12. Aðspurð hvernig tilfinningin hafi verið segir hún:
„Það að hafa komist áfram úr svona stórum hópi er ólýsanleg tilfinning. Það komu upp alls konar tilfinningar en mest fann ég fyrir stolti og gleði. Ég áttaði mig samt ekki alveg á því að ég hefði komist svona langt fyrr en kvöldinu var lokið.“
Lilja Sif var vel undirbúin fyrir keppnina með góða reynslu að baki. Hún var valin Ungfrú Ísland árið 2023 og keppti fyrir hönd Íslands í Miss Universe seinna sama ár. „En það sem kom mér virkilega á óvart var hversu mikið ég skemmti mér. Ég fann daglega hvað ég óx og dafnaði og mér leið ótrúlega vel,“ segir hún.
Hvað var erfitt og hvað var skemmtilegt?
„Mér fannst í rauninni ekkert vera erfitt á meðan ég var úti en það gat tekið smá á að fylgja dagskránni. Hún gat verið mjög löng. Hún byrjaði oft snemma á morgnana og var fram á kvöld. En það var gert svo að við fengjum sem allra mest úr ferlinu. Skemmtilegast fannst mér sumarhátíðin sem við tókum þátt í. Við eyddum öllum deginum og kvöldinu úti, bjuggum til blómakransa, dönsuðum í kringum bál og fögnuðum lengsta sólardegi ársins í Póllandi. Það var ótrúlega gaman! Ég kynntist tveimur litlum stelpum frá Póllandi, 5 og 6 ára, og við dönsuðum með þeim allt kvöldið. Það var mjög gefandi stund.“
Systrasamfélagið er sterkt í keppninni og eignaðist Lilja Sif góðar vinkonur. „Mér fannst ég alltaf eiga einhvern til að tala við eða leita til. Mest var ég samt með Ástralíu, við vorum herbergisfélagar og eyddum nánast öllum tímanum saman. Sakna hennar og stelpnanna ótrúlega mikið. Ég þarf klárlega að fara að bóka ferðir til útlanda og fara að heimsækja stelpurnar.“
Það er ekki komið á hreint hvað sé fram undan hjá Lilju Sif. „En ég veit að það verður eitthvað skemmtilegt,“ segir hún.
„Ég mun halda áfram að vinna með Miss Supranational, Ungfrú Ísland og taka þátt í Ungfrú Ísland teen ferlinu, sem ég er mjög spennt fyrir. Ég ætla líka að vera áfram í fullri vinnu á dagdeildinni sem ég vinn á og taka öllum tækifærum með opnum örmum.“
Að lokum segir Lilja Sif:
„Þessi keppni gaf mér ekki bara minningar og vináttu til lífstíðar, heldur líka meiri trú á sjálfa mig. Mig langar að hvetja aðra til að stökkva út fyrir þægindarammann. Maður vex svo mikið af því að prófa eitthvað nýtt og treysta á eigin styrk.“