Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Samfélagsmiðlastjarnan Ágúst Beinteinn Árnason, oftast kallaður Gústi B, er staddur á EM í Sviss, þar sem Ísland er þátttakandi. Þetta er fyrsta stórmótið sem hann fer á og ræddi hann það við 433.is hér í Thun í dag.
„Það hefur verið gaman að vera hérna úti og fylgjast með ferlinu. Stelpurnar hafa verið peppaðar og það hefur verið létt yfir þeim þrátt fyrir allt mótlætið,“ sagði Gústi, en Ísland er úr leik eftir aðeins tvo leiki í riðlakeppninni.
Það er óhætt að segja að Thun sé gullfallegur bær en hann er þó alls ekki fullkominn að mati Gústa.
„Vandamálið við Thun er að þeir vita ekki hvað loftkæling er. Það er funheitt allan sólarhringinn inni á hótelherberginu mínu. Ég er búinn að óska eftir færanlegri loftkælingu til að setja upp á herberginu mínu sem reddað er af þriðja aðila, en hótelstjórinn bannaði það.“
Gústi er nú ekki staddur á EM sem almennur áhugamaður heldur starfar hann fyrir Morgunblaðið. Hann myndar, setur efni inn á samfélagsmiðla og fleira.
„Ég geri nú mest lítið. Nei, við erum að taka upp efni fyrir Morgunblaðið og mbl.is. Bjarni Helgason dritar út fréttum og ég fanga stemninguna á filmu. Við erum að búa til skemmtilegt efni frá þessu ferðalagi þó vissulega sé erfitt að hafa ekki séð eitt mark frá íslenska landsliðinu.“
Gústi hefur almennt engan svakalegan áhuga á knattspyrnu en hefur þó fylgst vel með leikjunum og umræðunni hér í Sviss. Hann er með ráðleggingar til Þorsteins Halldórssonar landsliðsþjálfara fyrir lokaleik riðilsins gegn Noregi á morgun.
„Þetta er ekkert flókið. Ég vil sjá Dagnýu fara upp á topp. Það var hræðilegt að Hildur hafi fengið rautt spjald en ég vil fá hana aftur á miðjuna. Vanda skiptingarnar og pota honum svolítið inn. Það skiptir engu máli þó við fáum á okkur mark, förum bara í sókn. Er það of mikið að biðja um?“
Gústi lenti í hremmingum snemma í ferðinni hér úti og þurfti að komast til tannlæknis eins og skot. Þá er gott að þekkja gott fólk.
„Ég var með spangir á yngri árum og stoðboginn losnaði hér úti. Ég hringdi bara í tannlækninn minn heima, Kristínu Heimis, og kemur í ljós að hún og maðurinn hennar Bjarni bjuggu hér nálægt og áttu besta vin sem heitir Stephan. Hann er með tannlæknastofu sem er opin til 20:00 og ég bara kíkti þangað og hann græjaði þetta, rukkaði mig ekki einu sinni.“
Viðtalið í heild er í spilaranum.