Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Það var sannarlega hiti á blaðamannafundi Þorsteins Halldórssonar landsliðsþjálfara fyrir lokaleik EM gegn Noregi á morgun. Ísland hefur þegar tapað gegn Finnum og Svisslendingum á mótinu og er úr leik, sem eru gífurleg vonbrigði.
Framtíð Þorsteins hefur verið í umræðunni undanfarna daga en hann tók afar illa í spurningu undirritaðs um framtíð sína á blaðamannafundinum í dag. Hóf hann þá eldræðu um fáránleika þess að leikmaður hafi verið spurður út í skoðanir sínar á framtíð þjálfarans.
Vísir fjallar um að hann eigi við spurningu sem Alexandra Jóhannsdóttir fékk í viðtali við miðilinn. Sindri Sverrisson, blaðamaður Vísis, bað Þorstein um útskýringar á reiði sinni við þessum vangaveltum.
„Má ég spyrja þig aðeins að því af hverju þér finnst það heimska að gefa leikmanni tækifæri til að koma með stuðnignsyfirlýsingu við þig?“ spurði hann og Þorsteinn tók til máls.
„Leikmenn stjórna því ekki hver er þjálfari. Svo er leikur eftir og það setur leikmanninn í óþægilega stöðu að vera að ræða þetta. Leikmaðurinn hefur ekkert um þetta að segja,“ sagði hann.