Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, fjallar um mörk okkar og að virða mörk annarra í nýjasta pistli sínum á Facebook.
Ragnhildur segir það ekki nóg að kunna að setja okkar eigin mörk, við þurfum líka að kunna að virða mörk annarra.
„Tilfinningalega þroskað fólk virðir mörk.
Tilfinningalega þroskað fólk leyfir öðrum að segja NEI án þess að móðgast ofan í görn.
Gaslýsir ekki náungann með smánun og fyrirlitningu fyrir að sýna tilfinningar sínar.
Tilfinningalega vanþroskað fólk vanvirðir mörk og reyna ítrekað að rífa þau niður með allskyns aðgerðum: Klækjabrögðum, þríhyrningun, samviskubitsvæðingu, fýlustjórnun.
Þau álíta það landráð ef þú segir NEI.“
Segir Ragga að þessir einstaklingar líti svo á að þér þyki greinilega ekki nógu vænt um þau til að veita frjálsan aðgang að þínu lífi. Þess vegna verða þau móðguð og sár ef þú biður um að þitt einkalíf sé virt.
„Tilfinningalegur vanþroski er að eiga tilkall til þíns tíma, þjónustu og upplýsinga um þitt einkalíf.
Við viljum ekki vera týpan sem sýnir tilfinningar í gegnum hegðun eins og þagnarbindindi, hunsun, dæsa, rúlla augum, strunsa út og loka sig inni í herbergi í staðinn fyrir að ræða málin í rólegheitum.“
Ragga segir að opin og bein samskipti séu það sem við viljum, við viljum nota raddböndin og tunguna.
„Því ENGINN les hugsanir okkar og við lesum ekki hugsanir annarrra.“
Bendir Ragga á að mörk skaða ekki sambönd heldur þvert á móti, mörk vernda sambönd.
„Ef þú vanvirðir mörk annarra og ferð ítrekað yfir þau og viðkomandi draugar þig hraðar en misheppnað Tinderdeit, þá situr þú eftir og klórar þér í skallanum yfir hvað gerðist eiginlega.
En ef þú hefðir fengið skýr skilaboð strax um að þessi hegðun væri ekki í boði þá hefði verið tækifæri til að breyta um stefnu til að vernda sambandið.“
Ragga segir að sumum finnist dónalegt og ruddalegt að stama upp staðföstum skilaboðum um hvaða hegðun sé okkur boðleg. Við viljum ekki ásaka, gagnrýna eða ráðast á hina manneskjuna með fullyrðingum.
„Við viljum tala út frá okkur sjálfum og eigin upplifun.
„mér finnst….“ „ég tel….“ „það er mín upplifun….“
„Ég er ekki sátt við að þú ræðir mín persónulegu mál við annað fólk.“
„Mér þætti vænt um að þú látir mig vita næst þegar þér seinkar.“
Þegar við setjum mörk þá heiðrum við okkar þarfir, setjum fram raunhæfar væntingar um hvaða framkomu við líðum í okkar garð.
Að virða mörk annarra þroskar þig tilfinningalega.
Í staðinn fyrir að taka fullorðinstryllingskast eins og lítill krakki sem fékk ekki sleikjó í búðinni þegar einhver setur mörk, ertu manneskja stútfull af æðruleysi og auðmýkt.
Þú þarft ekki alltaf að skilja mörk annarra.
Þú þarft bara að virða þau. Ef sambandið skiptir þig máli.“