Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Glódís Perla Viggósdóttir fór af velli í hálfleik í leik Íslands og Finnlands í fyrsta leik EM.
Þetta eru skelfileg tíðindi fyrir Ísland, en landsliðsfyrirliðinn var að glíma við meiðsli á leiktíðinni og kveinkaði hún sér í fyrri hálfleik í dag.
Ekki er staðfest að um sömu meiðsli séu að ræða. Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari og Glódís voru föst á því í gær að miðvörðurinn væri búinn að ná sér af meiðslum sínum.
„Var sem sagt bara verið að gaslýsa heila þjóð þegar Steini og Glódís sögðu að hún væri góð?“ skrifaði Hilmar Jökull, einn harðasti stuðningsmaður landsliðsins á X yfir leiknum.
Var sem sagt bara verið að gaslýsa heila þjóð þegar Steini og Glódís sögðu að hún væri góð?
— Hilmar Jökull (@HilmarJokull) July 2, 2025