Alisha Lehmann, frægasta knattspyrnukona Sviss, hefur tjáð sig eftir að kvennalandsliðið tapaði 7-1 gegn 13-14 ára strákum frá FC Luzern.
Strákarnir í FC Luzern fóru illa með kvennalandsliðið í síðustu viku en þær undirbúa sig nú fyrir keppni á EM sem er einmitt í Sviss.
Það hefur mikið verið talað um þetta ákveðna tap en slík töp hafa sést í gegnum tíðina og tapaði besta kvennalandslið heims 2015, Bandaríkin, gegn strákum frá Dallas.
Mikið grín hefur verið gert að landsliðskonum Sviss en eins og oft er sagt þá er kvennafótbolti í raun önnur íþrótt en karlafótbolti vegna líkamlegrar getu.
,,Sem lið þá ákveðum við að hundsa þetta tal og einbeitum okkur á hvað við getum haft áhrif á,“ sagði Lehmann.
,,Eins og staðan er í dag þá höfum við engan tíma í að skoða þau vísindi sem eru á bakvið þetta.“
Lehmann og hennar liðsfélagar eru í riðli með Íslandi á EM og er fyrsti leikur liðsins gegn Noregi þann 2. júlí.