Sir Jim Ratcliffe, einn eigenda Manchester United og sá sem sér um knattspyrnuhliðar reksturs félagsins, óttast að Ruben Amorim yfirgefi Old Trafford í sumar.
The Sun heldur þessu fram, en Amorim tók við síðla síðasta hausts af Erik ten Hag. Hefur honum ekki tekist að snúa ömurlegu gengi liðsins við og vont í raun orðið verra hjá Rauðu djöflunum.
United er í 16. sæti ensku úrvalsdeildarinnar þegar einni umferð er ólokið en sæti Portúgalans virðist þó ekki vera heitt og er trú á að hann geti leitt liðið inn í bjartari tíma.
Sem fyrr segir er Ratcliffe hins vegar sjálfur sagður óttast að Amorim kalli þetta gott eftir hörmungarnar á leiktíðinni.
United getur þó bjargað tímabilinu að miklu leyti á miðvikudag, en þá mætir liðið Tottenham í úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Sigurvegarinn fær sæti í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð.