Í vetur setti meirihlutinn í Hafnarfirði ákvæði um að fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir þurfi að hafa samráð við bæinn um búsetuform. ÖBÍ og Þroskahjálp hafa sent bæjarstjóra erindi um hvernig þetta samræmist lögum og Samfylkingin í minnihluta bæjarstjórnar óttast að ákvæðið verði notað til að hindra að fatlað fólk flytji í bæinn.
„Maður hefur áhyggjur af því að þetta gæti verið notað þannig,“ segir Árni Rúnar Þorvaldsson bæjarfulltrúi Samfylkingar. „Það er alveg klárt mál og það á ekki að vera þannig. Fatlað fólk ætti að geta valið sér búsetu eins og aðrir í samfélaginu.“
Ákvæðið sem meirihluti Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks bætti inn í úthlutunarreglur félagslegs húsnæðis er eftirfarandi:
„Einstaklingur sem óskar eftir þjónustu Hafnarfjarðarkaupstaðar á grundvelli SIS-mats sem krefst víðtækrar þjónustu þarf að hafa samráð við sveitarfélagið um búsetuform þannig að hægt sé að samræma þjónustuþætti á vegum sveitarfélagsins liggi það fyrir að viðkomandi einstaklingur muni óska eftir þjónustu sveitarfélagsins.“
Hafa bæði ÖBÍ og Þroskahjálp sent bæjarstjóra bréf vegna málsins þar sem spurt er hvernig ákvæðið samræmist lögum. Þá hefur samráðshópur um málefni fatlaðs fólks, svokallað notendaráð, einnig lagst alfarið gegn ákvæðinu og telur það ganga gegn lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.
Á fundi fjölskylduráðs á þriðjudag, 13. maí, kröfðust fulltrúar Samfylkingar að bréfið yrði lagt fram til umræðu í málinu sem og öll önnur gögn. Var því hafnað á grundvelli þess að verið væri að taka gögnin saman.
„Það er verið að þvæla málið að óþörfu,“ segir Árni Rúnar. „Við teljum að þetta eigi brýnt erindi við málið. Við viljum fá þau gögn sem eru send til bæjarins og varða mál sem við erum að fjalla um. Við skiljum ekki af hverju það er ekki hægt að leggja þau fram þegar við biðjum um það. Við teljum að þarna séu brýnar spurningar sem eigi erindi við ráðið sem kom að því að setja þessar reglur.“
Meðal annars spurningar um hvernig þetta ákvæði samræmist lögum og hvort það sé ekki verið að mismuna fötluðu fólki með því.
„Fólk sem flytur í bæinn þarf alla jafna ekki að hafa samráð við sveitarfélagið um það. Hvers vegna ætti að setja slíka hindrun upp fyrir fatlað fólk?“ spyr Árni Rúnar. „Það skiljum við ekki og erum á móti þessu ákvæði. Þarna er verið að mismuna fötluðu fólki og setja auka kröfur á það sem okkur finnst ekki samræmast góðri stjórnsýslu.“
Eins og áður segir þá hefur hann einnig áhyggjur af því að ákvæðið verði notað til þess að hindra að fatlað fólk flytji í bæinn.