Svarthöfði er fljótlega á leið í kaffi til Steingríms J. Sigfússonar í Breiðholti en þar hefur hann búið síðan 1987. Fyrir foringja vinstrimanna dugar ekkert minna en 300 fermetra einbýlishús sem metið er hátt í 100 milljónir. Húsið á hann skuldlaust. Steingrímur er með 1,8 milljónir króna í laun á mánuði eða 21,6 milljónir á ári.
Steingrímur fær bætur í hverjum mánuði því hann er með lögheimili á Gunnarsstöðum í Þistilfirði; bæturnar eru 134.000 krónur en það gera 1.608.492 krónur á ári. Rétt er að taka fram að þessar greiðslur eru skattfrjálsar. Svarthöfði gleðst fyrir hönd Steingríms enda fasteignagjöld af slíkum glæsihýsum nokkuð há.
Steingrímur hefur átt lögheimili á Gunnarsstöðum frá 4. ágúst 1955. Heldur Steingrímur fram að það skipti engu máli skipti hvar þingmaður haldi lögheimili. Svarthöfði veit að það er ekki rétt. Ef Steingrímur myndi nú eins og langflestir Reykvíkingar sem búa í Reykjavík og starfa í Reykjavík, skrá lögheimili sitt í Reykjavík, þá fengi hann ekki 130 þúsund skattfrjálst í vasann. Svarthöfði veit líka að það er mun þægilegra að hafa lögheimilið skráð úti á landi, þó að fjarlægðin í þinghúsið sé lengri er leiðin þangað auðveldari en ef Reykvíkingurinn og Breiðhyltingurinn myndi neyðast til að fara í prófkjör fyrir sunnan.
Steingrímur segir að meginstarfsstöð hans sé fyrir austan. Kveðst hann reka og halda húsinu í Þistilfirði við. Það gerir Steingrímur ekki einn. Sem betur fer aðstoða systkini hans við að taka þátt í þeim kostnaði. Þá segir Steingrímur að það hafi aldrei verið leyndarmál að aðalheimili fjölskyldunnar hafi verið í Reykjavík.
Svarthöfða þykir þetta nokkuð undarleg ummæli. Hvorki Steingrímur né eiginkona hans eru skráð til heimilis í Þingaseli 6. Í símaskrá er Steingrímur skráður á Gunnarsstöðum og heimili eiginkonu hans er ekki tekið fram þótt það sé hægur leikur að skrá þar hvaða heimili sem manni hugnast. Steingrímur virðist ekki vilja að fólk sé meðvitað um að hann búi í 315 fermetra einbýlishúsi í Breiðholti, sem sérstaklega hefur verið fjallað um í Morgunblaðinu vegna glæsileika.
Húsið er á tveimur hæðum og stendur í rólegri lokaðri götu. Dan Wiium fasteignasali lýsti glæsihúsinu svona:
„Frábærlega vel staðsett hús með góðu útsýni. Á efri hæð flísalögð forstofa. Gengið er niður í arinstofuna, en hún er flísalögð með hitalögn. Hurð er úr arinstofu út á stóran trépall. Hjónaherbergi er sérlega rúmgott með fataherbergi inn af og flísalagðri snyrtingu með sturtu.“
Steingrímur hefur verið kallaður kommúnisti og tók það eitt sinn upp á þingi þegar hann var uppnefndur. Sagði hann þá að honum væri sama hvaða nöfnum menn væru að reyna að klína á andstæðinga sína. Það sem skipti máli væri fyrir hvað menn stæðu og hvernig þeir gerðu grein fyrir sér í pólitík en þó sérstaklega hvað menn gera. Steingrímur sagði:
„Að lokum dæmir það mennina, þ.e. fyrir hvað stóðu þeir og hvað gerðu þeir? Hvað voru þeir í reynd, ekki í orði heldur á borði? Við skulu bara láta söguna, herra forseti, um að gefa okkur, mér og hæstv. núv. viðskrh., einkunnir í þeim efnum þegar frá líður.“
Nú þegar nokkur tími er liðinn finnst Svarthöfða að Steingrímur sverji sig í ætt við forystumenn stórra vinstri flokka í sögunni sem hafi haft hátt fyrir alþýðuna en svo farið heim og yljað sér í arinstofunni áður en þeir háttuðu sig í fataherberginu.
Þegar Svarthöfði bankar upp á í Þingaseli finnur hann ljúfan kaffiilm en morgunkaffi Steingríms um hugsjónir virðist orðið nokkuð þunnt.