

Það fangar ekki alveg kraftinn í því sem Ásta Fanney Sigurðardóttir gerir að kalla það ljóðlist. Hún er frekar eins og galdrakona sem magnar upp töframátt orða. Hún er með glitrandi nærveru og er ofurnæm á orkuna í kringum sig. Ljóðagjörningar hennar felast í því að skynja andrúmsloftið í hópnum sem hún er að performa fyrir eða með. Hún varpar orðum eða athöfnum inn í aðstæðurnar og sprengir þær algjörlega upp. Það er eitthvað óendanlega spennandi við að upplifa þetta, en á sama tíma ógnvænlegt – eitthvað svo hættulegt – því maður veit aldrei hverju er von á. Allt getur gerst. Stundum upplifir maður eitthvað fallegt, oft eitthvað fyndið, stundum óþægilega vandræðalegt eða jafnvel óbærilega leiðinlegt, en alltaf er þetta uppfullt af einhverjum ákafa og krafti sem er allt of sjaldgæfur í heiminum.
Ásta Fanney Sigurðardóttir er alin upp í Reykjavík, stundaði nám í myndlist við Listaháskóla Íslands, var einn stofnmeðlima Kunstschlager-hópsins, sem hélt úti sýningarrými og vinnustofum á Rauðarárstíg um nokkurt skeið, gaf út ljóðabókina Herra Hjúkket hjá Partus Press árið 2012, og hefur síðan þá birt ljóðmyndir á strætóskýlum, gert ljóðakvikmynd, tekið þátt í samsýningum og ferðast með gjörninga sína milli listahátíða víða um heim. Nú síðast hefur hún vakið athygli á tónlistarsviðinu, bæði ein og með raftónlistarsveitinni Ayia.
„Ég er svo gráðug í að skapa að það verður eiginlega að ofvirkni. En allar þessar gerðir sköpunar eru jafnar fyrir mér, tónlistin er ekkert mikilvægari en myndlistin eða öfugt. Þetta er allt jafn mikilvægt,“ segir Ásta Fanney og sest upp í djúpum vínrauðum leðurstólnum í anddyri Hótel Holts þar sem við höfum mælt okkur mót.
Þrátt fyrir þessa ofvirkni í sköpun finnst mér allt of fáir – kannski fyrir utan þá sem fylgjast náið með tilraunakenndum listum í Reykjavík – sem vita um alla þá fallegu hluti sem þú gerir.
„Já, ég er svolítið leyni. Það er kannski að hluta til vegna þess að ég geri ósýnilega hluti – sem mér finnst mikilvægt í heimi þar sem allt er svo ofur-sýnilegt. Undanfarin ár hef ég þannig tekið meðvitaða ákvörðun um að setja ekki neinar skrásetningar á þessum hlutum á netið eða svoleiðis. Það gæfi þeim nefnilega allt annað gildi, verðmæti og merkingu. Þegar ég er með upplestur er ég að skapa einhverja stemningu, búa til orku sem hefur svo ákveðin áhrif á umhverfið. Þetta er ekki hægt að gera í gegnum myndband, netið eða álíka. Þannig að þetta eru svona leyniathafnir, seremóníur, ósýnilegir atburðir sem mynda samt einhverjar gárur út frá sér,“ segir Ásta.
Hún lyftir höndunum frá stólbríkinni og leitar með þeim í loftinu eins og hún sé að að reyna að grípa fjaðurmögnuð orð eða hugsanir sem svífa allt í kringum hana.
„Í hvert skipti sem maður notar orð er maður að spinna eins og kónguló, spinna vef í loftinu, spinna alls konar fína hluti úr orðunum. En orð er líka eins og steinn sem hent er ofan í vatn og myndar gárur. Orð hafa byltandi áhrif á allt, á líf fólks. Þau fara í gegnum mann og hafa áhrif, í gegnum skinnið, kjötið, gegnum beinin, verða að hugsunum og móta það hvernig maður sér heiminn. Orð eru svo miklið töfrar! En töfrarnir felast ekki einungis í því sem þú segir, heldur líka í því hvernig þú segir það, í hvaða samhengi, hvar, við hvern og svo framvegis. Þess vegna er „performansinn“, gjörningurinn, svo mikilvægur hluti af ljóðinu.“
Samhengið er því eitt grundvallaratriðið í ljóðagjörningunum og því eiginlega ómögulegt að skrásetja þá eða varðveita. Jafnvel að lýsa gjörningum Ástu Fanneyjar í stuttu máli getur verið hægara sagt en gert, enda er þar sjaldnast nokkuð sem sýnist í fyrstu. Það sem virðist ætla að verða hefðbundinn ljóðalestur verður að margslunginni sögustund og uppistandi, það sem hefst sem alvarlegt tónlistaratriði verður að taugaveiklandi vandræðalegu leikriti, það sem hefst sem lifandi gjörningur verður að klukkutíma þagnarbindindi.
Flest töfraverka Ástu Fanneyjar eru hverful og finna sér sjaldnast efnislegan samastað. En hún segir að í kjölfar útgáfu á ljóðaheftisins árið 2012 hafi hún tekið meðvitaða ákvörðun um að hætta að gefa út – í bili að minnsta kosti. En af hverju?
„Ljóð eru svo persónuleg og mér fannst hálfskrýtið að eintak af ljóðabókinni væri skyndilega komið í allt annað samhengi en ég hafði ímyndað mér – hún sæti bara á einhverju borði einhvers staðar. Mér fannst fólk ekki vera að skilja mig eða ljóðin á þann hátt sem ég vonaði. Á sama tíma fannst mér bók vera of mikil „vara“, það er hlutur sem er bara framleiddur til að hægt sé að skipta á honum og peningum. Um svipað leyti hætti ég líka að gera áþreifanleg myndlistarverk, hætti að búa til vöruna og vildi ekkert með hana hafa. Þá fór ég að velta fyrir mér hvernig ég gæti skapað eitthvað sem fólk þyrfti ekki fyrst að horfa á og velta fyrir sér: „Er þetta 2.000 króna virði?“ Mig langaði að skapa einhverja stemningu eða orku sem ég væri sjálf til í að upplifa. Þá fór ég að gera þessa ljóðagjörninga. Í hvert skipti passaði ég mig að gera alltaf eitthvað alveg nýtt – aldrei það sama. Ég vildi gera hluti sem myndu hverfa undir eins. Bara þetta eina augnablik sem kæmi aldrei aftur.“
„Síðan gekk ég kannski aðeins of langt og reyndi að láta sjálfa mig hverfa. Ég hætti öllu þessu og flutti til Marseille í Frakklandi með engan síma og ekki neitt. Þar byrjaði ég bara að gera raftónlist með gömlum, frönskum körlum. En ég komst að því að maður sleppur ekki frá því hvaðan maður kemur, maður tekur allt með sér hvert sem maður fer. Fyrir ári hélt ég til dæmis kvikmyndasýningu í Mengi á kvikmynd sem var aldrei til. Ég gerði hljóðspor við myndina og lýsti síðan bíómyndinni með ljóðum í performans við svartan skjá. Eftir það hitti ég gamlan prófessor sem sagði mér að það sem ég væri að gera væri „pjúra myndlist“. Mér hafði sem sagt mistekist að hætta í myndlist. En maður á kannski ekkert að vera að láta hanka sig á skilgreiningum, þær eru bara til trafala.“
Ég held að margir þeirra sem hafa reynslu af upplestrunum þínum og gjörningum kannist við að þú sprengir upp stemninguna, eins og þú reynir að nema orkuna í rýminu og gefur hópnum sem er samankominn svo það sem hann þarf frekar en það sem hann vill. Hvað er það sem þú vilt gera?
„Ég hef að leiðarljósi að segja eitthvað sem hjálpar fólki að vera til. Mér finnst til dæmis oft gott að fíflast, vegna þess að fólk er svo oft fast inni í líkamanum sínum en frelsast við það að sjá einhvern gera það sem hann vill – einhvern sem fylgir bara flæðinu. Að einhverju leyti reyni ég að finna þær hindranir og vegatálma sem flestir viðstaddir eiga sameiginlega og vinna með þær: ef ég geri eitthvað tiltekið þá mun öllum líða vandræðalega í smástund en eftir á fær það fólk til að hugsa. Stundum heldur fólk nefnilega að það vilji eitthvað sem það langar í raun ekkert í. Það fer á tónleika og heldur að það vilji bara heyra eitthvað flott lag en það sem hefði enn betri áhrif væri að sjá manneskju gera eitthvað algjört rugl. Þá færi það að hugsa: „Nei, ég gæti gert þetta miklu betur, af hverju gerir hún ekki þetta eða þetta?“ Þá er búið að kveikja á einhverjum skapandi hreyfli í manneskjunni án þess að hún fatti það sjálf. Mér finnst frábært ef mér tekst að kveikja í fólki – hafa þau áhrif að það fari eitthvað í gang.“
Ég vildi gera hluti sem myndu hverfa undir eins. Bara þetta eina augnablik sem kæmi aldrei aftur.
Þó að Ásta hafi helst verið áberandi á mynd- og ljóðlistarsviðinu undanfarin ár hefur hún einnig verið að gera tónlist í einhverri mynd frá því að hún var lítil. Það var þó ekki fyrr en nýlega sem hún fór að flytja hana opinberlega. Hún segir áhugavert að kynnast þeim bransa, en þó oft hægara sagt en gert að laga sig að hinum ströngu kössum og strúktúrum sem þar hafa mótast.
„Öll sköpun kemur frá sömu lind. Það er þess vegna svo furðulegt að þegar hún fer inn á ákveðin svæði að þá fer hún að lúta allt, allt öðrum reglum. Þess vegna finnst mér svo gaman að blanda ólíkum formum saman. Ef ég geri tónlist inn í samhengi myndlistarheimsins eða öfugt þá er því allt öðruvísi tekið ef þetta er sett inn í hefðbundið samhengi,“ segir Ásta og undir þetta er hægt að taka. Verk hennar leika sér oftar en ekki með væntingar áhorfenda og hinar óskrifuðu hegðunarreglur á mismunandi vettvangi.
„Tónlistariðnaðurinn snýst svo mikið um „branding“ – sem er einmitt það sem ég hef alltaf verið að forðast. Ég hef alltaf reynt að koma í veg fyrir að fólk mæti með einhverjar tilteknar væntingar þegar ég kem fram. Ég vil að það viti helst ekki neitt hvað það er að fara að upplifa, búist ekki við neinu eða að minnsta kosti einhverju allt öðru en raunin verður. Þetta finnst mér mjög spennandi en þetta er rosalega erfitt að hemja og markaðssetja – erfitt að „branda“ þetta. Þeir sem hafa verið að bóka tónleika eiga oft erfitt með þetta. Þeir mæta á tónleika og spyrja hálfpartinn: „er verið að fokka eitthvað í mér?“ Það halda það eflaust margir. En með þessu viðtali er ég í raun að eyðileggja fyrir sjálfri mér, þeir sem lesa þetta búast núna alltaf við einhverju óvæntu svo þetta er búið spil! Núna verð ég bara að einbeita mér að hefðbundnum málverkum, bókum úr pappír og dægurlögum. Prófa svo að „branda“ mig alveg í drasl – það er satt að segja kannski smá spennandi og ólíkt því sem ég hef áður fengist við.“
Þó að Ásta Fanney hafi dýft tánum örlítið í popplaugina með Ayia þá einbeitir hún sér fyrst og fremst að ýmsum jaðarviðburðum: tekur þátt í tilraunakenndum tónlistarhátíðum, syngur í lúxembúrgísku leikhúsi, semur eitthvað sem hún kallar „þorskaóperu“ og stendur fyrir ljóðatónleikaseríunni Noise Poetry.
„Í þeirri seríu les ég ljóð undir hávaða, linnulausu „noise-i“ í ýmsum myndum. Á einum performans mætti ég í dragt og með metal-trommara sem spilaði svo hátt að það yfirgnæfði upplesturinn minn. Það fannst mér áhugaverð tenging við það hvernig það er að vera kvenmaður í þessum bransa. Það er eins og það sé ósýnilegt samþykki að konur séu ekki alveg „með þetta“ – nema þær séu samþykktar af körlunum auðvitað, þá er það í lagi. Ég veit að þetta hljómar eins og einhver bitur klisja en þetta er satt. Ég trúði þessu ekki til að byrja með en sé núna að þetta er úti um allt – og er okkur öllum að kenna.
En mér fannst líka eitthvað pönklegt við þetta. Í dag er eiginlega meira pönk í því að vera í dragt heldur en að vera með gadda framan í sér. Ekki það að ég sé á móti gaddafagurfræði – það er mjög smart – en ég tengi það meira við einhverja Kringlutísku heldur en róttækni. Hið eiginlega pönk er dautt því það er ekkert hættulegt við það lengur. Nú finnst mér vera komið nýtt pönk, svona súrrealískt skrifstofupönk – kannski ætti að kalla það „spönk?“ Í dag sýnist mér vera miklu hættulegra að gera eitthvað sem þykir asnalegt en að eltast við það sem fólk hefur ákveðið í sameiningu að sé kúl. Það þykir kannski asnalegt að klæða sig í dragt, en hún verður þar af leiðandi spennandi, sérstaklega ef maður er að skoða hvað það er sem við höfum tekið sameiginlega ákvörðun um að teljist normið.“
Fagurfræði og skipulag skrifstofunnar er einmitt eitthvað sem er Ástu sérstaklega hugleikið þessa dagana.
Næsta verkefni hennar er gjörningurinn Consultant, eða Ráðgjafinn, sem hófst í gluggagalleríinu Wind & weather gallery á Hverfisgötu á mánudag og stendur yfir í sex daga. Þar hefur hún sett upp skrifstofu í glugganum og rannsakar nærveru og raunveruleika í net- og kjötheimum.
Ráðgjafinn er hluti af stærri hugmynd sem Ásta er að vinna með og hún kallar Zolta, en á dögunum hélt hún ráðstefnu í Mengi undir þeim merkjum. Þar stefndi hún saman hópi fólks úr mismunandi geirum til að velta fyrir sér glundroðanum og þeim mynstrum sem hægt er að greina í honum. Viðburðurinn var vægast sagt kaotískur.
„Til að geta sest niður í auga hvirfilbylsins, verður maður fyrst að ferðast inn í kaosið og koma út hinum megin. Maður verður að fatta að það sé ekkert nema kaos – og það sé allt í lagi. Það eru líka mynstur í kaosinu, sem maður getur þó ekki útskýrt. En um leið og maður finnur sátt með, þá getur maður skilið það,“ segir Ásta.
Hún segir að glundroði á sviðinu, þar sem enginn veit hvort verið sé að leika eða ekki, þar sem allir séu opnir fyrir mistökum og hlutirnir eigi að fara úrskeiðis – en geri það yfirleitt á óvæntan hátt – sé sérstaklega áhugavert. „Þá erum við stödd inni í leikriti, sem er samt lifandi og raunverulegt. Þú ert alveg á nálum og veist hvorki upp né niður. Þegar fólk er alveg í lausu lofti skapast svo mikil orka. Maður er alveg á brúninni – þar er svo áhugavert að vera og útsýnið alveg einstakt.“
Þegar fólk er alveg í lausu lofti skapast svo mikil orka.
Ásta Fanney Sigurðardóttir hlaut ljóðstaf Jóns úr Vör þegar hann var veittur við hátíðlega athöfn í Salnum í Kópavogi á 100 ára afmæli skáldsins á laugardag, 21. janúar. Verðlaunaljóðið heitir Silkileið nr. 17, en önnur verðlaun hlaut Áslaug Jónsdóttir fyrir ljóðið Hrogn og lifur og Fríða Ísberg hlaut þriðju verðlaun fyrir ljóðið Funalind. Verðlaunin eru veitt árlega og marka upphaf Daga ljóðsins í Kópavogi. Í umsögn dómnefndar sagði meðal annars: „Verðlaunaljóðið er gott dæmi um sköpunarmáttinn sem býr í málinu og skáldskapnum og sýnir vel hvað eitt lítið ljóð getur rúmað stóran heim og opnað margar leiðir til túlkunar.“
Silkileið nr. 17
þú breyttir mér óvart í vetur
og hélst ég væri planta (og sól og ský)
sem vökvaði sjálfa sig með snjó
og geymdir mig í brjóstvasa í krukku með mold
og úr laufunum láku silkileiðir í gegnum saumana
að tölu sem ég þræddi eitt sinn með hári
ég ferðast þaðan á hraða úlfalda
því annars verður sálin eftir segja arabar
í eyðimörk skyrtu þinnar
(sem minnir á handklæði)
er ég týnd í sveit milli sanda
of nálægt
til að geta aðskilið
jörð og skinn
svo ég skauta bara hér
þar til vorar