Viktor Gyokores þarf að vera hugrakkur til þess að semja við Manchester United í sumar en hann er á mála hjá Sporting í Portúgal.
Gyokores þekkir Ruben Amorim, stjóra United, vel en þeir unnu saman í Portúgal áður en sá síðarnefndi færði sig yfir til Manchester.
Alan Shearer, markahæsti leikmaður í sögu úrvalsdeildarinnar, varar Gyokores við því að ganga í raðir United sem hefur spilað afskaplega illa í deild á tímabilinu en á enn möguleika á að komast í Meistaradeildina með sigri á Tottenham í úrslitaleik Evrópudeildarinnar.
,,Þeir eru langt frá því að geta barist um enska titilinn og það mun aldrei gerast á næsta tímabili,“ sagði Shearer.
,,Félagið er í annarri stöðu ef þeir komast í Meistaradeildina og það mun hjálpa í að lokka ákveðna leikmenn á Old Trafford.“
,,Þeir verða að vinna Evrópudeildina og ég veit að Ruben Amorim er með sína menn fyrir félagaskiptagluggann í sumar. Hann þjálfaði Gyokores sem er eftirsóttur af mörgum liðum.“
,,Hann er mjög hugrakkur ef hann semur við Manchester United – hann eða aðrir leikmenn því þeir eru ekki í Meistaradeildinni.“