Nottingham Forest vann gríðarlega mikilvægan sigur í ensku úrvalsdeildinni í dag er liðið spilaði við West Ham á útivelli.
Forest getur enn tryggt sér sæti í Meistaradeildinni fyrir lokaumferðina en liðið spilar þar gegn Chelsea sem er í sömu baráttu.
Mörk Morgan Gibbs-White og Nikola Milenkovic tryggðu 2-1 útisigur í dag en Jarrod Bowen klóraði í bakkann fyrir heimamenn.
Jamie Vardy kvaddi Leicester með sínu 200. marki en hans menn unnu 2-0 sigur á Ipswich sem skiptir í raun litlu máli þar sem bæði félög eru fallin.
Brentford spilaði þá gegn Fulham og tapaði 3-2 á heimavelli eftir að hafa verið 2-1 yfir þegar 68 mínútur voru komnar á klukkuna.
Fulham tókst á frábæran hátt að snúa þessum leik sér í hag og lyfti sér upp í tíunda sæti deildarinnar.