
Markavélin Murielle Tiernan er gengin í raðir Stjörnunnar frá Fram. Þetta var staðfest í dag.
Sóknarmaðurinn hefur gjörsamlega raðað inn mörkum hér á landi undanfarin ár í efstu og næstefstu deild, fyrst með Tindastól og nú síðast Fram. Er hún með 147 mörk í 176 leikjum.
Stjarnan hafnaði í fjórða sæti Bestu deildarinnar í sumar. Óskar Smári Haraldsson er á leið inn í sitt fyrsta tímabil sem þjálfari liðsins, en hann vann einmitt með Murielle hjá Fram.
Tilkynning Stjörnunnar
Murielle Tiernan skrifar undir samning við Stjörnuna
Murielle þarf ekki að kynna mikið fyrir knattspyrnuáhugafólki enda hefur hún skorað 147 mörk í 176 KSÍ leikjum á sínum ferli á Íslandi. Hún hefur leiki á Íslandi frá árinu 2018 bæði með Tindastól og nú undanfarin 2 ár með Fram. Hún skoraði 11 mörk í 21 leik á síðasta tímabili.
“Ég tel það mikilvægt skref í uppbyggingarfasanum sem við viljum taka á næstu árum að vera með réttu karakteranna. Murielle Tiernan er ekki bara fantagóður framherji sem kann að skora mörk – heldur er hún jákvæður leiðtogi sem gefur af sér, bæði innan sem utan vallar. Ég er gríðarlega ánægður að fá hana í Garðabæinn og væntist til mikils frá henni” segir Óskar Smári, þjálfari meistaraflokks kvenna.
Við bjóðum Murielle hjartanlega velkomna í Garðabæinn og tökum vel á móti henni.
SKÍNI STJARNAN