
Marc Ciria, frambjóðandi til forseta stórliðs Barcelona, hefur heitið því að gera hvað sem þarf til að fá Lionel Messi aftur til félagsins. Forsetakosningar hjá Barcelona fara fram á næsta ári og Ciria er nú formlega kominn í baráttuna ásamt núverandi forseta Joan Laporta, Victor Font og Xavi Vilajoana.
Ciria, sem er fjárfestir, kynnti kosningabaráttu sína undir heitinu Moviment 42 á fundi sem um 700 félagsmenn sóttu. Þar lagði hann áherslu á að leysa fjárhagsvanda félagsins og gefa félagsmönnum sterkari rödd.
Í viðtali var Ciria spurður um Messi. „Við sögðum það strax árið 2021 að hann væri bæði góður sem leikmaður og efnahagslegur drifkraftur. Við þurfum Leo Messi og við munum gera hvað sem þarf til að fá hann aftur,“ sagði hann.
Ciria útskýrði þó ekki í hvaða hlutverki Messi gæti snúið aftur. Messi, sem er 38 ára, skrifaði nýverið undir þriggja ára samning við Inter Miami og ólíklegt er að hann snúi aftur sem leikmaður. Argentínumaðurinn hefur þó ítrekað sagt að hann vilji flytja aftur til Barcelona eftir ferilinn.