

Bruno Guimarães, fyrirliði Newcastle, efast um hugarfar liðsfélaga sinna eftir niðurlægjandi tap gegn Sunderland í grannaslag liðanna og sagði frammistöðuna hafa verið algert rugl.
Lið Eddie Howe tapaði 1-0 á Stadium of Light á sunnudag í fyrsta nágrannaslagnum í tæp tvö ár. Sigurmarkið kom í síðari hálfleik þegar Nick Woltemade skoraði sjálfsmark.
Með sigrinum fóru nýliðar Sunderland, undir stjórn Régis Le Bris, upp í sjöunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum á undan Newcastle sem situr í 12. sæti.
Newcastle skapaði lítið sóknarlega og átti Sunderland ekki í teljandi vandræðum með að halda forystunni. Guimarães, sem sagði lið sitt vera sterkara á pappír, var afar ósáttur.
„Ég er mjög reiður, vandræðalegur og pirraður. Það var engin fyrirgjöf, engar sendingar og engin skot. Ekkert,“ sagði Brasilíumaðurinn.
„Við spiluðum ekki eins og betra liðið. Hugarfarið var ekki til staðar og við börðumst ekki. Stuðningsmennirnir eiga skilið miklu betra.“