
Framkvæmdastjóri sádiarabísku deildarinnar, Omar Mugharbel, hefur staðfest að Mohamed Salah sé einn af leikmönnum sem félögin í landinu vilja reyna að fá í janúar.
Salah, sem er 33 ára, var ekki með Liverpool í 1-0 sigri á Inter Milan í vikunni eftir að hafa gagnrýnt Arne Slot og félagið harðlega. Hann er því sterklega orðaður við brottför.
„Salah er velkominn í Sádí-deildina. Það eru félögin sem semja við leikmenn, en hann er klárlega einn af þeim sem við horfum til,“ segir Mugharbel.
Liverpool hafnaði 150 milljóna punda boði frá Al-Ittihad 2023 en hefur Salah síðan verið sterklega orðaður við Sádí. Egyptinn er samningsbundinn Liverpool út næstu leiktíð.