
Jurgen Klopp, fyrrum stjóri Liverpool, ræddi helstu áskoranirnar sem fylgdu því að vera stjóri Mohamed Salah í viðtali við BBC.
Salah hefur verið mikið í umræðunni undanfarið eftir að hann hjólaði í Liverpool og Arne Slot eftir bekkjarsetu í þremur leikjum. Var hann utan hóps í Meistaradeildinni í vikunni í kjölfarið.
Klopp fékk Salah til Liverpool árið 2017 og vann Englandsmeistaratitilinn og Meistaradeildina með honum. Þrátt fyrir frábært samstarf við Salah viðurkenndi Klopp að það væri ekki alltaf auðvelt að stýra honum.
„Þú átt í smá vandræðum með Mo ef hann er ekki að spila eða ef þú tekur hann útaf,“ sagði Þjóðverjinn.
Slot útilokaði ekki endurkomu Salah í leikmannahópinn, en gaf í skyn að Egyptinn þyrfti fyrst að biðjast afsökunar. Óvíst er því hvort Salah spilar næsta deildarleik gegn Brighton á laugardag.
Salah fer síðan með Egyptalandi í Afríkukeppninni og verður frá fram að áramótum eða lengur, það fer eftir genginu þar.