
Elías Már Ómarsson er að ganga í raðir Íslandsmeistara Víkings, eftir því sem fram kemur í hlaðvarpinu Dr. Football.
Elías er þrítugur og kemur til Íslands frá Kína, en hann gekk í raðir Meizhou Hakka í sumar. Hann hefur átt góðu gengi að fagna í Frakklandi, Hollandi, Svíþjóð og Noregi í atvinnumennsku.
Dr. Football segir sóknarmanninn hafa hafnað því að ganga í raðir nýliða Keflavíkur í Bestu deildinni, en hann er uppalinn hjá félaginu.
Þess í stað skrifar hann samkvæmt þessu undir hjá stjörnum prýddu liði Víkings, sem ætlar sér að verja Íslandsmeistaratitilinn og fara langt í Evrópu á næsta ári.