

Cristiano Ronaldo hefur útskýrt af hverju hann mætti ekki í útför liðsfélaga síns úr portúgalska landsliðinu, Diogo Jota.
Jota, 28 ára, og bróðir hans André Silva, 26 ára, létust þann 3. júlí þegar Lamborghini-bíll þeirra fór út af hraðbraut á Spáni. Jota hafði gift sig aðeins nokkrum dögum áður og fréttir af andlátinu vöktu djúpa sorg í fótboltaheiminum.
Fjölmargir samherjar, þar á meðal Virgil van Dijk, Andy Robertson og Ruben Neves, mættu í útförina í Portúgal. Ronaldo var hins vegar ekki viðstaddur og fékk gagnrýni fyrir fjarveruna. Í nýju viðtali við Piers Morgan segir Ronaldo að ákvörðunin hafi byggst á tveimur mjög persónulegum ástæðum.
„Eftir að faðir minn lést, hef ég aldrei farið aftur í kirkjugarð,“ sagði Ronaldo.
„Það var loforð sem ég gaf sjálfum mér og ég finn ekki styrkinn til að brjóta það.“
Hinn 40 ára gamli framherji segir einnig að nærvera hans hefði dreift athyglinni frá fjölskyldu Jota á erfiðum tíma.
„Það er staðreynd að hvar sem ég mæti skapast ákveðinn sirkus. Ég vildi ekki að útförin snérist um mig. Það hefði verið rangt fyrir fjölskylduna,“ útskýrði Ronaldo.
„Ég vissi að ef ég myndi mæta myndi athyglin breytast, og það átti ekki að gerast. Þetta var þeirra stund.“
Ronaldo sagði að hann hafi gefið Jota og fjölskyldu hans stuðning á persónulegum vettvangi, utan sviðsljóssins. „Ég talaði við fjölskylduna og sendi þeim samúð og ást. Ég þarf ekki að standa í fremstu röð fyrir framan myndavélar til að sýna virðingu,“ bætti hann við.
„Samviskan mín er hrein og ég veit að ég tók rétta ákvörðun.“