

Fyrrverandi landsliðsþjálfari Englands, Sir Gareth Southgate, segir að hann hafi áhyggjur af þjóðareiningu landsins í kjölfar umræðu um notkun enska fánans
Á síðustu mánuðum hefur fjöldi enska og breskra fána verið reistur víða um landið. Margir líta á það sem þjóðrækni, en aðrir telja að það geti verið ógnandi tákn.
Southgate, sem hætti sem landsliðsþjálfari eftir tapið gegn Spáni í úrslitum EM 2024, er nú að kynna bókina Dear England: Lessons in Leadership, þar sem hann fjallar meðal annars um einingu þjóðarinnar.
Í viðtali við BBC Breakfast sagði hann. „Ég hef áhyggjur af samstöðu. Ég hef séð hvað við gerðum með landsliðinu til að sameina samfélagið,“ sagði Southgate.
„Ég held að það sé mun meira sem sameinar okkur en sundrar okkur, og við ættum að leggja meiri áherslu á það sem tengir okkur heldur en það sem skilur okkur að.“