
Varnarmaðurinn Daníel Leó Grétarsson var nokkuð óvænt hetja Sonderjyske í sigri á Vejle í dönsku úrvalsdeildinni í gær.
Daníel Leó var á sínum stað í hjarta varnarinnar, en þess má geta að Kristall Máni Ingason byrjaði einnig fyrir Sonderyske. Daníel skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma, 2-1.
„Alltaf þegar ég kem mér inn í teig og boltinn kemur trúi ég að ég sé að fara að skora. Annars færi ég ekki inn í teig,“ sagði íslenski landsliðsmaðurinn við danska fjölmiðla eftir leik.
„Það er erfitt að lýsa þessu, þetta var blanda af létti og gleði. Það mikilvægasta var að ná í þrjú stig. Það var ég sem skoraði sigurmarkið í dag en á öðrum degi er það Mads Agger og Tobias Sommer.“
Sonderjyske er í fimmta sæti deildarinnar eftir 14 umferðir en Vejle er á botninum.