

Fyrrum leikmaður Manchester City og Ítalíu, Mario Balotelli, fagnaði brottrekstri Patrick Vieira frá Genoa um helgina. Vieira, fyrrum leikmaður Arsenal, var látinn fara eftir slæma byrjun liðsins í Serie A.
Genoa eru á botni deildarinnar og enn án sigurs á tímabilinu. Mikael Egill Ellertsson er leikmaður liðsins.
Balotelli lék undir stjórn Vieira hjá Genoa á síðasta tímabili, en samband þeirra var þegar orðið stirt frá því þeir störfuðu saman hjá Nice. Þegar fréttir bárust af brottrekstri Vieira birti Balotelli færslu á Instagram þar sem hann sagði:
„Nú getur Genoa loks einbeitt sér að fólki sem raunverulega elskar klúbbinn, stuðningsmennina og merkið. Þeir sem komu á eftir Gilardino og Zangrillo nýttu sér vinnu þeirra eigingjarnt og án virðingar.“
Balotelli þakkaði fyrrverandi stjóra og forseta Genoa fyrir „ástríðu og hollustu“ og sagði að arfleifð þeirra hefði verið misnotuð af Vieira og hans teymi.
