
Enska knattspyrnusambandið tekur undir hugmyndir UEFA um að gera umfangsmiklar breytingar á evrópsku undankeppnunum fyrir stórmót landsliða. UEFA staðfesti nýverið að unnið sé að hugmyndum um áhugaverðara fyrirkomulag fyrir komandi keppnir.
England hefur átt ótrúlega auðvelda undankeppni fyrir HM 2026. Lið Thomas Tuchel tryggði sér sæti á mótinu í síðasta mánuði með 5–0 sigri á Lettlandi og hefur enn ekki fengið á sig mark í riðlinum. Stórlið eins og Þýskaland, Portúgal, Belgía og Frakkland eru einnig á leið beint á HM, líkt og Spánn, Króatía og Holland.
Bæði UEFA og fjölmargir stuðningsmenn telja núverandi undankeppnisfyrirkomulag orðið of einhæft, sérstaklega miðað við nýtt, vel heppnað kerfi í Meistaradeildinni, þar sem keppt er í deildarkeppni. Aleksander Ceferin, forseti UEFA, viðurkenndi í síðasta mánuði að þörf væri á breytingum.
Mark Bullingham, framkvæmdastjóri enska knattspyrnusambandsins, styður hugmyndina og segir mikilvægt að gjörbreyta kerfinu til að halda alþjóðaboltanum spennandi. Hann staðfesti að enska sambandið væri hluti af vinnuhópi sem myndi skoða mismunandi útfærslur.
Hefðbundin riðlakeppni verður fyrir undankeppni EM 2028 en svo er spurning hvort farið verði í eitthvað nær því sem þekkist úr Meistaradeildinni.