

Minningarathöfn var haldin í Serbíu í gær til heiðurs knattspyrnustjóra Mladen Zizovic, sem lést 44 ára að aldri eftir að hafa hrunnið við hliðarlínu í leik á mánudag.
Zizovic féll til jarðar á 22. mínútu í leik Radnicki 1923 gegn Mladost og var strax fluttur á sjúkrahús, en lést þar skömmu síðar.

Leikurinn var í fyrstu stöðvaður þegar atvikið átti sér stað, en eftir að hann hófst á ný var hann að lokum blásinn af rétt fyrir hálfleik þegar fréttir af andláti Zizovic bárust leikmönnum og þjálfarateymi inni á vellinum.
Myndskeið sem fór á flug á samfélagsmiðlum sýnir leikmenn og starfsfólk brotna niður, faðmast og reyna að hugga hvern annan eftir að harmleikurinn varð ljós.

Radnicki hélt minningarathöfn í ráðhúsi Kragujevac á miðvikudagsmorgun þar sem félagar, starfsmenn og aðdáendur lögðu blóm og kveiktu á kertum til minningar um þjálfarann.
Ásamt leikmönnum og starfsfólki liðsins mættu einnig fulltrúar frá serbneska knattspyrnusambandinu, þar á meðal nýráðinn landsliðsþjálfari Veljko Paunovic, sem flutti stutt minningarorð.

Zizovic tók við Radnicki í lok október og var þetta aðeins hans þriðji leikur við stjórnvölinn. Hann lék lengi sem miðjumaður og hætti sem leikmaður árið 2016.
