Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Klara Bjartmarz, fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, er jákvæð þrátt fyrir slök úrslit íslenska kvennalandsliðsins á EM. Hún er mætt til Sviss fyrir lokaleik okkar á mótinu og átti stutt spjall við 433.is á Fan Zone í Thun í dag.
„Það er frábært að vera komin og að vera búin að koma okkur í þá stöðu að vera í úrslitakeppni. Ég hlakka til leiksins og á von á skemmtun,“ sagði Klara.
Ísland hefur tapað fyrir Finnum og Sviss og er því úr leik fyrir leik kvöldsins.
„Síðasti leikur var hörkuleikur og hefði getað fallið með okkur. Svona er boltinn, stundum fellur þetta með þér og stundum ekki.“
Klara hætti hjá KSÍ í fyrra eftir 30 ára starf og hefur aldrei farið á stórmót sem almennur stuðningsmaður.
„Það er yndislegt að vera hérna og fá að upplifa mótið á þennan hátt sem ég hef ekki gert áður. Ég held að ég hafi aldrei farið á knattspyrnuleik erlendis án þess að vera í vinnuerindum.“
Nánar í spilaranum.