Helgi Fannar Sigurðsson skrifar frá Sviss
Sveindís Jane Jónsdóttir landsliðskona býst við svakalegri stemningu í leiknum við Sviss annað kvöld.
Liðin mætast í öðrum leik sínum á EM og þurfa bæði á sigri að halda eftir tap í fyrstu umferð. Stelpurnar okkar töpuðu 1-0 gegn Finnum og Sviss 1-2 gegn Noregi.
„Það hefur ekkert breyst. Við ætlum bara að halda áfram á þeirri braut sem við erum og vinna þær. Þá er allt galopið,“ segir Sveindís við 433.is.
Leikvangurinn í Bern á morgun tekur yfir 30 þúsund manns, næstum fjórfalt fleiri en leikvangurinn sem spilað var á í Thun gegn Finnlandi.
„Ég er ógeðslega spennt fyrir þessu. Það er alltaf gaman þegar það eru margir áhorfendur á vellinum og ég veit að við munum eiga nokkra þar líka. Ég hlakka til að sjá fólkið í bláu þó það verði sennilega aðeins fleiri í rauðu.“
Sveindís segist kunna vel að meta stuðning Íslendinga í Thun, en þeir hættu aldrei þrátt fyrir tapið. „Maður var eiginlega orðlaus yfir þessu. Þessir stuðningsmenn hætta aldrei og eru frábærir. Við erum mjög þakklátar fyrir stuðninginn.“
Sveindís er spennt fyrir morgundeginum. „Þetta verður geðveikt. Við vitum að það verða læti og við erum tilbúnar í það. “
Nánar í spilaranum.