Enzo Maresca, stjóri Chelsea, var í leikbanni og því uppi í stúku í sigri liðsins gegn Everton um helgina. Chelsea-goðsögnin Eiður Smári Guðjohnsen botnar þó ekki í sætavali Ítalans.
Þetta var til umræðu í Vellinum á Símanum Sport. Eiður Smári þekkir Stamford Bridge, heimavöll Chelsea, vitaskuld vel og sagði hann sætið sem Maresca er í alls ekki upp á marga fiska ef þú vilt sjá sem mest af leiknum.
„Ég þekki þetta sæti og hef setið í því, en þá var ég bara að vinna fyrir sjónvarpið. Það er allt of mikil umferð þarna í kringum hann og enginn friður, þetta var mjög sérstök ákvörðun að sitja þarna,“ sagði Eiður til að mynda um málið í Vellinum.
Chelsea vann leikinn 1-0, en liðið er í hörkubaráttu um Meistaradeildarsæti.