Íslenska landsliðið í knattspyrnu vann frækinn sigur á Englandi í vináttulandsleik á Wembley í kvöld. Sigurinn kom flestum í opna skjöldu.
Enska liðið stillti upp mjög sterku liði enda var þetta síðasti æfingaleikur liðsins fyrir Evrópumótið í Þýskalandi sem hefst í næstu viku.
Jón Dagur Þorsteinsson skoraði eina mark leiksins í fyrri hálfleik. Hann keyrði þá á John Stones varnarmann Englands og setti boltann í gegnum klof hans og þaðan í markið. Aaron Ramsdale stóð í markinu og átti ekki séns.
Íslenska liðið varðist virkilega vel í leiknum og skipulag liðsins hélt vel, enska liðið virtist stundum ekki vilja keyra í hlutina af fullum krafti af ótta við meiðsli fyrir EM. Það nýtti íslenska liðið sér.
Hér eru einkunnir landsliðsmanna að mati 433.is.
Byrjunarlið Íslands:
Hákon Rafn Valdimarsson 8
Frábær og öruggur í öllum aðgerðum, ljóst að hann á orðið stöðuna og enginn getur ógnað henni
Bjarki Steinn Bjarkason 7
Kom skemmtilega óvart inn í byrjunarliðið, var í smá brasi í byrjun en vann sig vel inn.
Sverrir Ingi Ingason 8
Virkilega góður leikur hjá Sverri sem er svo yfirburða besti miðvörður íslenska landsliðsins
Daníel Leó Grétarsson 8
Daníel hefur notið þess að fá traustið frá Age Hareide og nýtt það mjög vel. Öflugur í kvöld.
Kolbeinn Birgir Finnsson 8
Virkilega öflug frammistaða Kolbeins, hans besta frammistaða varnarlega í íslenskum búningi.
Mikael Neville Anderson (´64) 7
Gerði virkilega vel í öllum varnarleik og studdi vel við bakið á Bjarka Steini, komst lítt áleiðis sóknarlega.
Jóhann Berg Guðmundsson (´83) 8
Varðist vel og hélt skipulagi liðsins, er að þróast í mikinn leiðtoga á miðsvæðinu.
Arnór Ingvi Traustason 8
Hljóp allar mínútur leiksins og varðist vel, er orðinn lykilmaður í því sem Hareide vill gera.
Jón Dagur Þorsteinsson 8
Gerði frábærlega í að taka markið sitt í fyrri hálfleik og var óheppin að skora ekki tvö, rann á rassinn í dauðafæri í seinni hálfleik
Hákon Arnar Haraldsson (´83) 9 – Maður leiksins
Mest skapandi leikmaður liðsins fram á við og varnarlega var Hákon einnig virkilega góður. Vonarstjarna liðsins fyrir næstu ár og er að taka við lyklunum að liðinu.
Andri Lucas Guðjohnsen 7
Fékk auðvitað úr litlu að moða en virðist vera orðinn fyrsti kostur Hareide í fremstu víglínu og það er auðvelt að skilja það, stór, sterkur og heldur bolta vel. Getur ógnað markinu.
Varamenn:
Stefán Teitur Þórðarson (´64) 6
Komst ágætlega inn í hlutina á þeim rúmu 25 mínútum sem hann spilaði.